Lögreglan á Suðurnesjum hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni á samfélagsmiðlunum síðustu daga eftir að hún birti gervigreindarmynd af lögreglumönnum með skólakrökkum en lögreglan minnir á endurskinsmerkin með Facebook-færslunni.
„Hversu fokking dystópískt að lögreglan sé að pósta AI myndum til að sýna hversu vinaleg og barnvæn hún er,“ skrifar Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, fyrrverandi menningarblaðamaður Frétttablaðsins, á X-inu í morgun en undir þetta taka margir þó sumir verja ákvörðun lögreglunnar.
Við Facebook-færslu lögreglunnar hrósar María nokkur lögreglunni í kaldhæðni fyrir gervigreindarmyndina en lögreglan svaraði að bragði: „Sammála, er hún ekki æði? Kemur skilaboðunum nokkuð vel til skila (Þótt einkennisbúningurinn sé ekki fullkominn).“
Bryndís nokkur skrifar athugasemd: „Líka engin persónuverndarlög brotin með birtingu þessarar mynda,“ sem lögreglan svaraði: „ já, það er ekki úr vegi að nefna einmitt persónuverndina. Mikilvægt!“
Þessari athugasemd lögreglunnar svaraði Pétur Eggerz Pétursson, sem mikið hefur gagnrýnt störf lögreglu á Instagram síðustu mánuði, og segir: „Er ekki úr vegi að nefna persónuvernd? Vitið þið á hvaða gögnum þetta tauganet er þjálfað? Jesús“. Bætir hann við: „Að nota stórt tauganet, sem er þjálfað á skröpuðum gögnum af ljósmyndum af börnum án leyfis, til að búa til myndir af börnum í leik við lögreglu, og halda því fram að það sé ekki vafasamt frá sjónarhorni persónuverndar, er mjög lýsandi fyrir skilning ykkar á eigin starfssviði.“ Pétur setur síðan hlekk á grein sem skrifuð var á justsecurity.org en hún fjallar um hættuna sem stafar af gervigrein þegar snýr að persónuvernd barna.
Mannlíf hefur sent fyrirspurn á lögregluna á Suðurnesjum en bíður svars.