Lögreglan á Akureyri telur blaðamennina fjóra, sem hafa réttarstöðu sakborninga í rannsókn lögreglunnar, hafa séð og jafnvel miðlað klámefni sem finna mátti í síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja. Stundin greinir frá þessu.
Líkt og Mannlíf greindi frá í dag veit lögreglan hver stal síma Páls og snýst rannsóknin gegn blaðamönnunum fjórum ekki að skrifum þeirra um Samherja og skæruliðadeild fyrirtæksins. Blaðamennirnir sem hafa nú réttarstöðu sakbornings eru þau Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður Kjarnans.
Samkvæmt kröfugerð lögreglu telur hún sig hafa fengið fram játningu einstaklings sem nákominn er Páli, þar sem viðkomandi gengst við að hafa byrlað Páli svefnlyfjum, tekið síma hans og dreift efni þaðan til fjölmiðla. Lögreglan átelur blaðamenn fyrir að hafa nýtt sér gögn „faglega og fjárhagslega“, gögn sem sýndu myndbönd af Páli skipstjóra í kynlífsathöfnum.
Lögregla segir nákominn hafa játað
Samkvæmt Stundinni var kröfugerð lögreglu lögð fram í dag. „Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er,“ segir í grein Stundarinnar.
Lögreglan á Akureyri grunar blaðamennina fjóra um brot. Það er þó ekki þjófnaðarbrot heldur möguleg miðlun klámefnis og brot á friðhelgi.
„Lögreglan hefur staðfest að myndbönd af kynferðislegum toga hafi verið í síma brotaþola og að afrit slíkra myndbanda hafi verið sent úr símanum. Brotaþoli hefur staðfest við lögreglu að í síma hans hafi verið myndbönd af honum í kynlífsathöfnum,“ segir í kröfugerð lögreglu:
„Þar sem X afhenti ekki gögn úr símanum heldur símann sjálfan liggur fyrir að fjölmiðlar sem tóku við símanum afrituðu hann. Ekki er ljóst hvort síminn var afritaður að hluta eða að öllu leyti en ljóst er að þeir sem afrituðu símann hafa þurft að skoða allt sem í símanum var þó þeir hafi bara afritað hann að hluta. Það er ljóst að gögnum úr þessum afritaða síma var dreift á milli fjölmiðlamanna, þ.á.m. hugsanlega kynlífsmyndböndum. Rannsóknin snýst einnig um meint kynferðisbrot (dreifing á kynferðislegu myndefni),“ segir jafnframt í kröfugerðinni.
„Lögreglan á Akureyri rökstyður sakamálarannsókn á blaðamönnum með því að hún gruni þá um kynferðisbrot gegn skipstjóra Samherja, sem felist í hugsanlegri miðlun eða viðtöku kynlífsmyndbanda hans, sem lögreglan segir nákominn aðila honum hafa dreift ásamt fleira efni í síma hans, mögulega í hefndarskyni,“ segir Jón Trausti. Og rithöfundurinn Illugi Jökulsson á ekki til orð yfir framgöngu lögreglunnar í málinu. „Afsakiði átján sinnum — en er þetta brandari?!,“ spyr Illugi.