Tveir karlmenn voru í gær úrskurðaðir af Héraðsdómi Reykjaness í vikulangt gæsluvarðhald í gær vegna tengsla þeirra við skotárás sem átti sér stað í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld en mennirnir voru handteknir vegna málsins í gær. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, sagði í samtali við RÚV að það verði hugsanlega fleiri handteknir í tengslum við þessa skotárás og geti verið að hún tengist öðrum skotárásum sem hafa orðið á árinu. „Á þessu stigi getur alveg komið til þess að við þurfum að hafa upp á fleirum í sambandi við þetta mál,“ sagði Grímur og jafnframt að rannsóknin væri í fullum gangi. „Það er enn verið að safna upplýsingum eins og við höfum gert síðan á aðfangadagskvöld og verið að yfirheyra þá sem að við teljum að þurfi að yfirheyra.“