Maðurinn sem lést í austurbæ Reykjavíkur í gærkvöldi er grunaður um að hafa látist vegna barsmíða.
Sjá einnig: Grunur um morð í austurbæ Reykjavíkur – Karlmaður á þrítugsaldri handtekinn
Maður á þrítugsaldri var handtekinn í gærkvöldi, grunaður um að hafa orðið manni á fimmtugsaldri að bana í austurbæ Reykjavíkur. Er talið að maðurinn hafi notað barefli við verknaðinn. Samkvæmt heimildum Rúv er hinn grunaði fæddur árið 2001.
Samkvæmt lögreglu barst tilkynning um andlátið um klukkan 19:30 í gærkvöld en talið er að maðurinn hafi látist stuttu áður eða um „kvöldmatarleitið“ líkt og segir í tilkynningu lögreglu.
Hinn látni þekkti líklega árásarmanninn
Rannsókn miðar ágætlega samkvæmt Margeiri Sveinssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni en Mannlíf ræddi við hann rétt í þessu. „Við erum bara í þessari vinnu að ræða við vitni og svona vettvangsvinnu.“ Aðspurður um nákvæma staðsetningu vildi Margeir ekki segja annað en að þetta hafi gerst í austurborginni „Við eigum eftir að tilkynna ættingjum frá þessu og fleira þannig að við erum ekki komin svona langt í upplýsingagjöf.“
Er Mannlíf spurði Margeir hvort mennirnir hafi þekkst taldi hann svo vera en vildi lítið segja meira: „Eitthvað vænti ég en veistu þetta er eitthvað sem við erum að skoða.“ Ekki vildi Margeir segja neitt um það hvort morðvopnið hefði fundist.