Eins og Mannlíf greindi frá brá mörgum gestum Minigarðsins þegar þeir mættu á veitingastaðinn til að horfa á leik Íslands við Grænhöfðaeyjar í fyrsta leik liðsins á HM í handbolta en staðurinn var skreyttur frá toppi til táar með auglýsingum fyrir erlent veðmálafyrirtæki. Rétt er að taka fram að samkvæmt stjórnarráðinu hefur fyrirtækið ekki leyfi til að starfa á Íslandi en ólöglegt er að auglýsa slík fyrirtæki.
Mannlíf hafði samband við Sigmar Vilhjálmsson, aðaleiganda Minigarðsins, en honum fannst auglýsingarnar ekkert stórmál og vildi meina að starfsemi veðmálafyrirtæksins á Íslandi væri lögleg. Hann tók þó fram að ákveðið hafi verið að fækka auglýsingunum á veitingastaðnum en ómögulegt reyndist fyrir gesti að horfa á leik Íslands án þess að horfa á fjölmargar veðmálasíðu auglýsingar á sama tíma.
Mannlíf hafði einnig samband við Stefán Örn Arnarson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, til að spyrjast fyrir um hvort hún gerði athugasemdir við auglýsingarnar en þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað en hann sér um fjármunabrot hjá lögreglunni.