Veðurstofan gerir ráð fyrir hægri breytilegri átt í dag með rigningu og snjó með köflum í flestum landshlutum. Hitinn verður um og yfir frostmarki.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að lögregla handtók mann í annarlegu ástandi rétt fyrir kvöldmatarleytið í gær en maðurinn hafði unnið skemmdir í sameign í fjölbýlishúsi og var ósjálfbjarga sökum ölvunar. Var hann vistaður í fangageymslu sökum ástands.
Rétt fyrir miðnætti var tilkynnt um slagsmál í miðbæ Reykjavíkur. Lögreglan handtók einn á vettvangi og fluttur á lögreglustöð en annar á bráðamóttöku til skoðunar.
Þá óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglunnar nú undir morgun vegna farþega sem neitaði að greiða fargjaldið. Viðkomandi reyndi að hlaupa í burtu en lögregla náði tali af honum.