Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður segir í viðtali að það líti aldrei vel út þegar lögreglan lendir í átökum. Þá lýsir hann einu erfiðasta útkallinu.
Í viðtali við Frosta Logason í þætti hans Spjallið með Frosta Logasyni, segir Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður frá ýmsu sem viðkemur lögreglustarfinu en hann segir íslenska lögreglumenn illa varða í réttarkerfinu þar sem árásir á lögreglumenn séu ekki litnar eins alvarlegum augum og í löndunum í kringum okkur. „Við viljum hafa það þannig að við séum við stjórn og vitum alveg hvað við erum að gera og séum ekki að missa stjórn á skapi okkar eða rugla saman, að þetta sé eitthvað persónulegt eða ekki. En á móti kemur hins vegar að ef það kemur til átaka, þá eru flest átök þannig að þau líta illa út, það er bara þannig.“
Jökull segir svo Frosta frá mjög efiðu augnabliki í starfi hans hjá lögreglunni: „Við komum á stað þar sem kona er að deyja, er í raun og veru dáin. Og hún er fíkill og hún á tvö börn í íbúðinni. Endurlífgunin var reynd rosalega lengi. Það eru komnir tveir sjúkrabílar á staðinn, það er kominn læknir á staðinn og það er í raun allt gert til þess að reyna að bjarga þessari konu en það er of seint. Og það gengur ekki. Og við tekur þá ákveðið ferli þar sem þú ert með börnin og ert að bíða eftir að afi og amma komi á staðinn til að taka börnin. Ég myndi segja að það, í minningunni, sé eitt af verri tilfellunum. Þú vilt gera allt sem þú getur fyrir börnin en þú getur ekki bjargað þeim á þann hátt sem þau virkilega vilja.“
Aðspurður um aldur barnanna sagði Jökull að eldra barnið hafi verið um 10 ára en hitt of lítið til að upplifa atburðinn eins og það eldra. „Ég man þegar við vorum komin með börnin til afa og ömmunar út í bíl, þá biður hún, þetta var sem sagt stúlka, biður mig um að sækja gæludýrið hennar. Ég verð bara klökkur á að tala um þetta,“ sagði Jökull og beygði aðeins af.
Frosti spurði hann hvort hann hefði ekki komið heim eftir þetta, bugaður. „Alveg klárlega,“ svaraði Jökull og hélt áfram: „Eða þú kemur svona þurrausa. Svona svolítið tómur.“
Hægt er að horfa á brot úr þættinum hér fyrir neðan: