Lögreglumenn á Íslandi hafa lýst yfir vilja til þess að embættið fái rafbyssur til afnota. Útköllum þar sem skotvopn koma við sögu hefur fjölgað nokkuð á síðustu misserum. Dómsmálaráðherra ætlar að funda með landssambandi lögreglumanna þar sem málið verður tekið fyrir. RÚV greinir frá þessu í dag.
Jón Gunnarsson sagði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að þróunin væri ógnvænleg og ekki eitthvað sem við vildum sjá halda áfram. Hann sagði þörf á að stemma stigu við aukinni notkun skotvopna í samfélaginu.
„Við höfum búið við mikið öryggi hérna á Íslandi og við viljum tryggja það að borgararnir séu öruggir. Við þurfum á sama tíma að líta til þess að lögreglumenn geti brugðist við með viðeigandi hætti; varið sjálfa sig og borgarana,“ sagði ráðherrann í morgunútvarpinu.
Jón talaði um að eðlilegt væri að það gætti ákveðins ótta meðal lögreglumanna þegar verið væri að fara í erfið útköll af þessu tagi en aukin hætta fylgdi oftar útköllum nú en áður. „Við erum að skoða það hvort getur verið eðlilegt að stíga þá það milliskref að taka upp þessi rafvopn, sem mikil reynsla er komin á víða um heim. Meðal annars hjá nágrannaþjóðum okkar.“
Nú hefur lögreglan piparúða og kylfur til umráða. Piparúði er fyrsta úrræði og kylfa þar næst í röðinni, þar sem meiri hætta er á að slys hljótist af notkun þeirra.
Jón segist hlusta á það ákall sem hefur borist úr röðum lögreglumanna hvað varðar notkun rafbyssa. Á dagskrá væri að funda með þeim um málið og taka svo ákvörðun um það hvort stíga eigi þetta skref í framhaldinu.
„Þá munum við gera það samkvæmt mjög ströngum reglum,“ sagði ráðherra.