Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-12.2 C
Reykjavik

Lúkasar saga – dáinn, horfinn – harmafregn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Um miðjan júnímánuð, árið 2007, fór íslenskt samfélag á hliðina, nánast bókstaflega. Þá kom á Bíladögum á Akureyri upp kvittur þess efnis að hópur ungra karlmanna hefði fundið hund sem hafði verið saknað síðan í maílok. Þessi kvittur markaði upphaf Lúkasarmálsins svokallaða.

Téður Lúkas hafði horfið frá heimili sínu á Akureyri og þrátt fyrir að til hans hefði sést endrum og sinnum hafði ekki lánast að hafa hendur í hari hans.  Lúkasar var, eðli málsins samkvæmt, sárt saknað. Lúkas var enda enginn ættlaus bastarður heldur hreinræktaður, kínverskur smáhundur af tegundinni Chinese Crested, hvorki meira né minna.

Nú, aftur að Bíladögum. Umrædda helgi dró til tíðinda en þá flaug fjöllum hærra sú fiskisaga að hópur pilta hefði fundið Lúkas. Í stað þess að hlúa að greyinu þá, að sögn vitna, settu þeir Lúkas í íþróttatösku sem þeir spörkuðu á milli sín þar til ýlfrið hljóðnaði.

Allar lýsingar voru mjög myndrænar og smáatriðin skorti ekki, annar eins hrottaskapur hafði eiginlega ekki áður sést í sögu lands og þjóðar. Eigandi Lúkasar, Kristjana Margrét Svansdóttir, fór rakleitt til lögreglunnar og lagði fram kæru.

Íslenskur almenningur lét ekki sitt eftir liggja og greip til lyklaborðsins; netheimar loguðu og vandlæting og fyrirlitning þeirra sem þar lögðu orð í belg var takmarkalaus. Meintum gerendum var hótað öllu illu og var mörgum mikið niðri fyrir. Einn meintra gerenda (reyndar var ekkert „meint“ í huga þeirra sem tjáðu sig), Helgi Rafn Brynjarsson, var úthrópaður sem höfuðpaur harðlyndu piltanna og fyrr en varði fékk hann að finna á eigin skinni þunga þeirra holskeflu sem hjarðeðli Íslendinga getur orsakað.

Sumarsæla Helga Rafns var á enda, og reyndar æði margt annað. Honum var hótað lífláti, umsátursástand var við heimili hans og ráðist á hann.

- Auglýsing -

Á meðal skilaboða sem Helgi Rafn fékk voru eftirfarandi: „Ég er persónulega búinn að setja menn á þig … ég veit hvar þú ert og hvert þú ferð“. Helgi Rafn missti vinnuna, þorði vart út úr húsi og þurfti að leita sér aðstoðar.

Harmi sleginn pöpullinn sá að fátt var í stöðunni annað en að kveðja Lúkas með pomp og prakt, reyndar hafði hræ hundsins ekki fundist þegar þar var komið sögu. Minningarathöfn var haldin, hvort tveggja í höfuðstað Norðurlands og höfuðborg landsins, og hefði hvaða þjóðhöfðingi sem er, nema kannski Kim Jong-un, talið sér mikill sómi sýndur með slíkri viðhöfn.

Ef Lúkas sjálfur hefði orðið vitni að kertafleytingunni sem fram fór honum til heiðurs má ætla að tár hefði sést á hvarmi hans, en hvort tveggja norðan og sunnan heiða tók fjöldi fólks þátt í kveðjuathöfninni.

- Auglýsing -

Sem fyrr segir hafði ekkert hræ fundist og brátt fóru að renna á lögreglu tvær grímur – að ekki væri allt sem sýndist. Leitað hafði verið í höfninni ef vera skyldi að Lúkas hefði orðið fiskafóður . Efasemdir lögreglu fengu byr undir báða vængi þegar orðrómur komst á kreik þess efnis að Lúkas „heitinn“ hefði sést spóka sig fyrir ofan þorpið við Eyjafjörð.

Málið var kannað og staðfest að þar væri ekki á ferðinni Lúkas afturgenginn, heldur sprelllifandi, jafnmannfælinn sem fyrr og helst til illa til reika. Hann var fangaður og komið til eigendanna sem fórnuðu eflaust höndum til himna af létti.

Eftir stóð mannorðsmorð sem bloggarar og virkir í athugasemdum stóðu fyrir í netheimum, sem reyndar er orðið að eins konar þjóðaríþrótt nú um stundir, tilvera ungs manns rústir einar og skaði sem erfitt var, og kannski ómögulegt, að bæta.

Helgi Rafn Brynjarsson náði að hreins mannorð sitt og kærði 70 manns fyrir hótanir og fleira í þeim dúr. Að lokum náðust sættir með Helga Rafni og nokkrum þeim sem harðast höfðu gengið fram.

Af Lúkasi er það annars að frétta að hann „andaðist“ í kjölfar veikinda árið 2011. Hvort honum var fylgt til grafar með viðhöfn fylgir ekki sögunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -