Wift – Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Íslandi sendu frá sér yfirlýsingu í gær. Þar lýsir félagið yfir miklum vonbrigðum með „algjöran skort á jafnréttissjónarmiðum þegar kemu að því að stilla upp í valnefndir Eddunnar.“
Fram kemur í yfirlýsingunni að í valnefndum Edduverðlaunanna 2023 hafi verið 25 karlmenn og 13 konur. Bendir Wift sérstaklega á að í valnefndum fagverðlauna hafi einungis fjórar konur verið á móti þrettán körlum. Og það er ekki það versta. „Það er alls kostar óásættanlegt að í valnefndum fyrir hljóð og tónlist, klippingu og kvikmyndatöku og handrit og leikstjórn sitji engin kona. Ekki ein. Ekki ein einasta.“
Fer félagið fram á það í yfirlýsingunni að stjórn ÍKSA „taki til gagngerrar endurskoðunar hvernig skipað er í valnefndir og að tryggt verði með þar til gerðum reglum að jafnréttisviðhorf verði höfð að leiðarljósi.“
Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan.
„Valnefndir Eddunnar 2023 voru gerðar opinberar í dag og nú er ljóst að jafnrétti kynjanna var á engan hátt haft að leiðarljósi þegar skipað var í þær. Í valnefndum eru í heildina 38 manns, 13 konur og 25 karlmenn. Sérstaklega ber að nefna að í valnefndum fagverðlauna voru 4 konur og 13 karlar. Það er alls kostar óásættanlegt að í valnefndum fyrir hljóð og tónlist, klippingu og kvikmyndatöku og handrit og leikstjórn sitji engin kona. Ekki ein. Ekki ein einasta.
Wift – Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Íslandi lýsir yfir miklum vonbrigðum með það sem virðist vera alger skortur á jafnréttissjónarmiðum þegar kemur að því að stilla upp í valnefndir Eddunnar. Hvernig stendur á því að árið 2023, að undangenginni mikilli vinnu við það að jafna hlut kynja í kvikmyndagerð, sé staðan þessi?
Wift á Íslandi fer fram á að stjórn ÍKSA taki til gagngerrar endurskoðunar hvernig skipað er í valnefndir og að tryggt verði með þar til gerðum reglum að jafnréttisviðhorf verði höfð að leiðarljósi. Mikilvægt er að valnefndir á fagverðlaunum íslenskrar kvikmyndagerðar, endurspegli samfélagið eins vel og kostur gefst og styðji við fjölbreytileika en ýti ekki undir mismunum.
Vinnubrögð af þessu tagi eru ekki aðeins óboðleg heldur rýra þau trúverðugleika tilnefninga og þar með verðlauna og varpa fyrir vikið skugga á alla Edduhátíðina í ár.
Skaðinn er skeður og það er í senn hryggjandi og svekkjandi að hin mikla og óeigingjarna jafnréttisbarátta sem hefur átt sér stað í faginu sé að engu höfð í sjónvarps -og kvikmyndaakademíu okkar allra. Stjórn Wift á Íslandi setur fram afdráttarlausa kröfu um að nú verði meitluð í stein ófrávíkjanleg regla ÍKSA um að gætt sé að fjölbreytni og kynjahlutföllum við skipun í valnefndir.
Fyrir hönd Wift á Íslandi“