Hrafnkell Sigurðsson, listamaður lýsir verkinu, sem hann kallar Upplausn/Resolution, svona:
„Verkið er abstrakt, það er ekki beint sýnilegt samhengi við umhverfið, það fer út úr öllu samhengi. Það er aftengt heiminum eins og við þekkjum hann,“ segir Hrafnkell Sigurðsson, listamaður í samtali við skrifstofu Reykjavíkurborgar.
Verk, sem nú eru sýnd á yfir 350 skjáum um alla borg, bæði skjáum í strætóskýlum og stórum auglýsingaskjáum við fjölfarnar götur, heitir Upplausn og er eftir listamanninn Hrafnkel Sigurðsson.
Billboard, sem rekur auglýsingaskjái í strætóskýlum og við gatnamót á höfuðborgarsvæðinu, efndi síðastliðið haust til opinnar samkeppni um myndlistarverk í almannarými í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Y gallerí.
Verkefninu er ætlað að lýsa upp skammdegið og gefa fólki tækifæri á að njóta listar um alla borg.
Hrafnkell Sigurðsson, var valinn úr hópi yfir 50 umsækjenda en reikna má með að yfir 80% höfuðborgarbúa muni sjá verk hans dagana 1.–5. janúar í strætóskýlum borgarinnar.
Listamaðurinn fær 1.000.000 kr greiddar fyrir verkið sem verður að sýningartíma loknum gefið í safneign Listasafns Reykjavíkur. Jafnframt er stefnt að því að verkið verði áfram sýnilegt í almenningsrými í borginni.