Þýskur maður slasaðist alvarlega á föstudaginn í síðustu viku eftir að ísbjörn réðst á hann á Grænlandi og var maðurinn fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur samdægurs en Vísir greinir frá málinu.
Þjóðverjinn var staddur á mannlausu eyjunni Traill á austurströnd Grændalands í óljósum erindagjörðum en samkvæmt grænlensku lögreglunni er hann mjög alvarlega særður eftir árásina en varðstjóri hjá grænlensku lögreglunni sagði í samtali við Vísi að lögreglunni hafi borist útkall um árásina á tólfta tímanum á föstudaginn.
Samkvæmt Vísi hafa ísbirnir verið að gera vart við sig í auknum mæli á austurströnd Grænlands undanfarið en sjaldgæft þykir að þeir nálgist mannabyggðir að sumri til.