Maðurinn sem lést í Brúará í gær stökk í ána til að bjarga syni sínum sem hafði fallið í ána.
Lögreglan á Suðurlandi staðfestir þetta í samtali við mbl.is í dag.
Líkt og fram kom í gær lést maður í gær eftir að hafa farið í Brúará og barist niður eftir ánni. Mikil leit hófst í kjölfarið en þyrla Landhelgisgæslunnar fann manninn um 400 til 500 metra frá staðnum sem hann féll ofan í en hann var þá látinn.
Bjargaði syni sínum
Maðurinn hafði verið við Brúará ásamt syni sínum þar sem þeir nutu náttúrunnar. Á einhverjum tímapunkti féll sonurinn í ánna fyrir slysni en stökk þá faðirinn í ánna og náði að bjarga syninum með því að ýta honum að bakkanum. Þar tóku aðrir ferðamenn við syninum og drógu í landi og slapp hann án meiðsla. Straumurinn tók hins vegar föðurinn með fyrrgreindum afleiðingum. Lögreglan segir að krufning muni leiða í ljós hvort maðurinn hafi drukknað eða látist af öðrum orsökum. Samkvæmt vef lögreglu var maðurinn kanadískur ríkisborgari sem búsettur var í Bandaríkjunum.