Sædís Hrönn Samúelsdóttir og 12 ára dóttir hennar, Ísabella Von, eru á leið til Flórída á næstunni eftir að frænka stúlkunnar, Ingibjörg Gróa Gunnarsdóttir safnaði fyrir ferð mæðgnanna.
„Stuðningur og styrkur samlanda okkar skilur okkur frænkur eftir orðlausar & meyrar! Rétt í þessu tilkynnti ég Ísabellu Von að þökk sé framlagi yfir hundruði samlanda okkar sé hún og móðir hennar á leið til Flórída,“ skrifar Ingibjörg í færslu.
Sjá einnig: Dóttir Sædísar reyndi að svipta sig lífi eftir einelti í Hafnarfirði:„Hún er enn þá uppi á spítala“
Ísabella Von hefur undanfarið dvalið á sjúkrahúsi eftir að hafa reynt að svipta sig lífi. Hún hefur orðið fyrir langvarandi einelti í Hafnarfirði og ofbeldi af hálfu jafnaldra sinna og hefur stúlkan unga ekki mætt í skólann lengi.
Ísabella hefur sætt hrottalegu einelti af hálfu jafnaldra sinna í rúmt ár og reyndi að svipta sig lífi í fyrradag. Hún er hú á leið til Flórída með móður sinni en þar á stúlkan frændfólk og eldri systur.
Ingibjörg stóð fyrir söfnun á Facebook:
„Söfnunin fór fram úr okkar björtustu vonum. Að finna og sjá fjölda fólks sem er tilbúið í að sameinast til að gleðja unga stelpu, leyfa henni að finna öryggi og tilhlökkun à ný eftir erfitt ár er aðdáunarvert í alla staði og sýnir að kærleikurinn og góðmennskan er àvalt meiri þótt reiði & hatur reynir að ná yfirhöndinni inn à milli!“
„Við vonum að umræðan seinasta sólarhring sé àminning til allra um að vanda sig ávalt í samskiptum við aðra og sýna börnunum góð fordæmi því þau læra það sem fyrir þeim er haft. Fyrir ykkur sem eruð að upplifa einelti, ég sendi ykkur styrk og vona að vitundarvakning hafi orðið í samfèlaginu og verði eineltis forvarnir og viðbragðsàætlanir endurskoðaðar. Þakklæti er ekki nægilega stórt orð til að lýsa seinasta sólarhring. Þakklàtust er ég fyrir að Ísabella Von sé enn hér hjà okkur og sjài alla ástina og kærleikan sem umvefur hana þessa stundina,“ segir Ingibjörg.