Ritstýran og baráttukonan Margrét Friðriksdóttir hefur kært til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu áreiti sem hún hefur upplifað á netinu. Að hennar sögn hefur falsaður aðgangur, undir nafninu Brjánn Magnússon, áreitt hana stöðugt undanfarið.
Margrét biður netverja einnig um aðstoð við að tilkynna aðganginn sem falsaðan. „Endilega reportið fals aðganginn Brjann Magnússon áreiti hans minn garð er einnig komið til lögreglu og unnið að því að rekja ip töluna. Það er lágmark fyrir alla netniðinga að skrifa undir réttu nafni og mynd og svara fyrir sitt refsiverða athæfi hjá dómstólum, þannig virkar réttarkerfið. Takk fyrir og eigið góðan dag,“ skrifar Margrét á Facebook.
„Ég kem almennt alltaf vel fram við fólk, en þessi var farin að kalla mig öllum illa nöfnum og hóta mér, ég svaraði því á móti en hefði kannski átt að sleppa því, svona aumingjar nærast á slíku virðist vera.“
Það á ekki af Margréti að ganga þessa dagana en nýverið var öllum sjónvarpsþáttum hennar eytt af streymisveitunni Uppkast. ún segist engar skýringar hafa fengið á hinu dularfulla hvarfi og biður aðdáendur sína um að bíða þolinmóðir á meðan hún finni útúr hvarfinu.
Þá kvartar Margrét, sem stofnaði og ritstýrir vefsíðunni Fréttin.is, undan því að enginn vilji auglýsa hjá henni á síðunni og því hafi hún verið í sjálfboðaliðastarfi undanfarið ár við að birta færslur á síðunni en þar hefur verið einblínt á gagnrýni á sóttvarnaraðgerðir íslenskra stjórnvalda í kórónuveirufaraldrinum.