Magnús Magnússon er látinn 97 ára gamall en mbl.is greinir frá þessu. Magnús var lengi einn af fremstu vísindamönnum Íslands og var lykilmaður í þróun verkfræði og raunvísinda við Háskóla Íslands. Magnús var menntaður stærðfræðingur og eðlisfræðingur frá hinum virta Cambridge-háskóla á Englandi og vann síðar meir við rannsóknir á afstæðiskenningu Einsteins við Princeton-háskólann í Bandaríkjunum. Magnús var eins og áður sagði lykilmaður í Háskóla Íslands en hann var fyrsti forstöðumaður Reiknistofnunnar Háskólans og Raunvísindastofnunar Háskólans. Þá var hann einnig forseti verkfræðideildar HÍ og forseti verkfræði- og raunvísindadeildar. Magnús eignaðist þrjú börn með Helgu Magnússon en hún lést árið 2019.