Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Magnús Tumi: „Þurfum að haga orðræðu okkar þannig að við séum ekki að ýfa upp sár sem orðið hafa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikilvægt er fyrir vísindamenn að vera varkárir í tali þegar kemur að náttúruhamförum á borð við þær sem nú skekja Grindavík, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar.

Fjöldi mismunandi kenninga og hugmynda um mögulegt eldgos í eða við Grindavík, hafa birst í fjölmiðlum frá upphafi jarðhræringanna nærri Grindavík og hefur sumum þótt nóg um, enda erfitt að átta sig því hver líklegasta þróunin verður. Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands segir í samtali við Mannlíf að það sé eðlilegt að margir tjái sig um hamfarir sem slíkar en að gæta þurfi várkárni. „Það er nú bara þannig að það er fullt af fólki sem hefur áhuga á þessu og er kannski misnálægt þessu og mismikið af gögnum sem það sér og svona. Og þannig eru þetta kannski misígrundaðar tilgátur sem settar eru fram. En það er málfrelsi og fólk segir það sem það vill en svo má líka segja að það sé ákveðið gagn af því að það komi fram mismunandi sjónarmið.“

Magnús Tumi bendir þó á að best sé að hlusta á þann hóp sem ber skylda lögum samkvæmt að upplýsa almenning, út frá nýjustu gögnum. „Fólk ætti kannski að horfa á að það er hópur, en sá hópur vinnur við þetta aðallega, við mælingar, fylgjast með þessu og greina, en það er Veðurstofan og fólk hér í Háskólanum, sem vinna saman. Þar er sjónarmiðin sett fram í daglegum skýrslum. Og það er svona yfirvegað mat eftir samtal hóps og það er eðli málsins samkvæmt, ekki kannski mikið af allskonar hugmyndum og hugdettum sem komast í gegnum það. Og það er sú mynd sem hefur hvað sterkasta bakgrunninn á grundvelli þeirra gagna sem til eru. Það er eitt. Síðan er auðvitað fullt af fólki sem hefur áhuga á þessum hlutum en er ekki alveg þarna og setur fram allskonar hugmyndir og við því er svo sem ekkert að segja en fólk setur fram hugmyndir og hefur rétt til þess. Það hefur alltaf verið þannig að þegar eitthvað gerist, þá koma fram allskonar hugmyndir.“

Aðspurður út í þreytu Grindvíkinga varðandi síbreytilegra tilgáta um mögulegt gos, sem má sjá á samfélagsmiðlum þessa dagana sagði Magnús Tumi: „Við berum öll skylda til að vera varkár og yfirveguð varðandi svona og þá sérstaklega þegar þetta snertir svo marga. Það hefur alltaf verið mín nálgun að forðast spádóma en setja fram sviðsmyndir og meta hvað sé líklegt og hvað ekki. En ekki fara að spá einhverju sem ég hef ekki forsendur til að segja hvort að verði eða ekki.“ Segir Magnús Tumi að grundvallaratriðið sé að viðbrögð séu þannig að fólki sé forðað frá hættu. „Það að rýma staði og bæi er ekki aðgerð sem gerð er í hálfkæringi og er í raun mjög snúið mál fyrir Almannavarnir og við getum sagt að þetta mál núna, að það lang stærsta við það er það áfall sem fólk í Grindavík hefur orðið fyrir. Við getum öll séð hversu alvarlegt mál það er að þurfa að yfirgefa heimili sitt í flýti og bæinn sinn og með óvissu um hvað verður, hvort hægt verði að snúa aftur. Þetta er bara mjög stórt mál og þarna þarf allt samfélagið að leggjast á eitt, aðstoða og vera til staðar og þetta reynir mjög á viðbragsaðila en auðvitað mest á fólkið í Grindavík og við þurfum að haga okkar orðræðu þannig að við séum ekki að óþörfu að ýfa upp þau sár sem orðið hafa.“ Magnús Tumi segir að á annan bóginn sé mikilvægt að mismunandi raddir komi fram og það sé metið en að það sé spurning á hvaða vettvangi það eigi að vera.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -