Undanfarnar vikur hefur verið hávær umræða meðal kennara og skólastjórnenda í grunnskólum á Íslandi um fjarveru nemenda frá skóla. Þá sérstaklega að nemendur virðast í auknum mæli vera að fara í innanlands- og utanlandsferðir með foreldrum sínum á skólatíma en dæmi eru um að nemendur sleppi allt að fimm vikum úr skóla vegna ferðalaga.
„Í mörgum löndum gilda strangar reglur um slík leyfi og eru þau að jafnaði ekki veitt vegna ferðalaga. Í Þýskalandi og Lúxemborg hafa barnaverndaryfirvöld stigið inn þegar fjarvera skólabarna fer yfir viss mörk, t.d. vegna ferðalaga. Það er ljóst að tíðar ferðir sem auka fjarveru frá skóla geta valdið miklu álagi og haft áhrif á andlega líðan nemenda,“ skrifaði Steinn Jóhannsson, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, í pistli um málið í seinustu viku.
„Það sem kannski skiptir mestu máli er að auka virðingu foreldra og nemenda fyrir því að skólasókn skiptir máli og hefur áhrif á námsárangur. Hætt er við því að nemandi sem er fjarverandi vegna tíðra ferðalaga tileinki sér þá skoðun að fjarvera úr skóla sé í lagi.“
Nám er samstarfsverkefni
Mannlíf hafði samband við Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands, til að spyrja hann út í ferðalög nemenda og möguleg áhrif sem þau gætu haft á nemendur.
„Mikilvægt er að forráðamenn séu í samráði við skóla barna sinna ef möguleiki er á röskun náms vegna ferðalaga,“ sagði Magnús Þór. „Nám er samstarfsverkefni heimilis og skóla og það á einnig við þegar kemur að þætti eins og fjarveru sem þessari. Sérstaklega þarf að horfa til hver staða hvers einstaklings er og gera allt sem hægt er til að lágmarka það rof sem kemur á námi vegna þessa. Hér á við nám á öllum skólastigum og á öllum aldri, ekkert síður á unglingastigi grunnskólanna eða á framhaldsskólastigi.“
Í lögum um grunnskóla er skólastjórnendum veitt mikið frelsi varðandi leyfisveitingar til ferðalaga og getur því verið mikill munur milli skóla þegar kemur að slíkum leyfisveitingum. Hvert mál fyrir sig er því í raun geðþóttaákvörðun hvers og eins skólastjóra. Magnús Þór er þó ekki á þeirra skoðun að það þurfi að breyta þeim lögum.
„Skólastjórar og skólameistarar bera ábyrgð á öllum þáttum skólastarfs þegar kemur að umgjörð þess og það er mjög mikilvægt að þar verði engin breyting á. Skólastjórnendur leiða samstarf skóla og heimila í hverjum skóla og eru best til þess fallnir að finna farsælar lausnir þegar kemur að leyfum nemenda sinna og mögulegri röskun á námi. Á sama hátt er það á þeirra ábyrgð að tilkynna þar til bærum yfirvöldum ef þeir telja fjarveru barns vegna slíkra ferðalaga vera á þeim stað að það skaði nám þess og líðan.“
Mikilvægt að setja börnin í fyrsta sætið
En hvaða skilaboð vill Magnús senda til foreldra?
„Einfaldlega að vera í samráði við skóla barna sinna ef til þess kemur að ferðalög valda röskun á námi barna. Það er mjög mikilvægt að slíkt samráð eigi sér tímanlega stað og að þær ákvarðanir sem þar eru teknar séu svo framkvæmdar á meðan á ferðalagi stendur. Það er barninu einfaldlega fyrir bestu.“