Föstudagur 17. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Mánaðarleg greiðslubyrði hefur hækkað um 46 prósent á einu ári: „Þetta er orðið fjarstæðukennt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mánaðarleg afborgun óverðtryggðs 38 milljóna króna húsnæðisláns með breytilegum vöxtum hefur hækkað um tæplega 70 þúsund krónur á einu ári. Hækkunin nemur um 46 prósentum. Ef greiðslubyrðin helst sú sama næsta árið, nemur hækkunin ein og sér 840.000 krónum á ári. Það mun hún hins vegar ekki gera. Seðlabankastjóri hækkaði nýverið stýrivexti, í áttunda sinn á einu ári, og slíkar hækkanir skila sér almennt fljótt og vel til bankanna.

Einstaklingur sem Mannlíf ræddi við tók óverðtryggt húsnæðislán á breytilegum vöxtum við íbúðarkaup á síðasta ári. Í september árið 2021, fyrir ári síðan, var vaxtaprósentan á láninu 3,45 prósent. Afborgun af láninu þann mánuðinn var 146.575 krónur. Ári síðar er afborgun septembermánaðar komin upp í 214.176 krónur. Vextir á láninu eru nú 6,22 prósent og hækkunin nemur 67.601 krónu.

MánuðurAfborgun
September 2021146.575 kr.
September 2022214.176 kr.

Hækkun í prósentum: 46%

„Þetta á bara eftir að hækka“

„Hvernig á fólk að geta þetta? Það hlýtur eitthvað að láta undan. Það eru alls ekki allir sem geta reitt fram auka 70 þúsund krónur á mánuði. Og þetta á bara eftir að hækka, ef eitthvað er að marka fyrirheit seðlabankastjóra og fyrri reynslu,“ segir lántakinn, sem kýs að láta nafns síns ekki getið.

Lántakinn segir því fara fjarri að hann hafi spennt bogann of hátt við kaupin. „Alls ekki. Ég réð vel við afborganir og lánshlutfallið er ekki of hátt. Ég hafði alveg svigrúm fyrir einhverjar hækkanir, en þetta er orðið fjarstæðukennt. Launin mín hafa sannarlega ekki hækkað á sama tíma.“

Hann segist smeykur um framhaldið, en ætla má að 0,75 prósenta stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands á dögunum komi til með að skila sér hratt og vel út í breytilega vexti bankanna. „Það gerist alltaf. Bankarnir eru alltaf fljótir að hækka vextina þegar stýrivextir hækka. Það gengur ekki jafn hratt í hina áttina hins vegar, af einhverjum ástæðum.“

- Auglýsing -

Barátta fyrstu kaupenda

Ljóst er að margir eru í svipuðum sporum og lántakinn sem ræddi við Mannlíf. Fyrstu kaupendum var gert auðveldara um vik að kaupa fyrstu eign í heimsfaraldri Covid-19, þegar vextir lækkuðu umtalsvert samhliða því að kaupmáttur jókst. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2021 voru 33,8 prósent allra kaupenda íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu að kaupa sína fyrstu íbúð. Vinsælustu íbúðalánin voru óverðtryggð lán. Nú má reikna með að margir þessara fyrstu kaupenda berjist í bökkum við að borga af láni sínu.

Í júní síðastliðnum lækkaði fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90 prósentum niður í 85 prósent. Fyrstu kaupendur þurfa því að reiða fram 15 prósent kaupverðs í útborgun í stað 10 prósenta, en sú upphæð hefur bólgnað enn frekar með hækkandi fasteignaverði.

Auk þessara þátta er greiðslubyrði óverðtryggðra lána mun hærri en hún var fyrir einungis ári, líkt og fram hefur komið, og því ljóst að þeir sem yfirhöfuð ráða við útborgun í fyrstu íbúð neyðast frekar til þess að taka verðtryggð lán. Greiðslubyrði þeirra lána en talsvert lægri, en á sama tíma er það höfuðstóllinn sem hækkar; lánsupphæðin sem lántaki skuldar bankanum bólgnar út í verðbólgu. Verðbólga í júlí var 9,9 prósent og hefur ekki verið meiri í nærri 13 ár.

- Auglýsing -

Eftir síðustu hækkun standa stýrivextir Seðlabanka Íslands í 5,5 prósentum. Þeir hafa ekki verið svo háir frá árslokum 2016. Íslandsbanki spáir því að stýrivextir verði 6 prósent í árslok, en Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur gefið það út að hann muni hækka stýrivexti eins oft og þurfa þykir til þess að vinna á móti verðbólgunni.

Hækkanir Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum

MánuðurHækkun í prósentumStýrivextir
Maí 20210,251,00%
Ágúst 20210,251,25%
Október 20210,251,50%
Nóvember 20210,502,00%
Febrúar 20220,752,75%
Maí 20221,003,75%
Júní 20221,004,75%
Ágúst 20220,755,50%

 

„Hlýtur að enda illa fyrir heimilin í landinu“

Lán einstaklingsins sem Mannlíf ræddi við er hjá Landsbankanum. Mánaðarleg greiðslubyrði hækkaði um 56.858 krónur frá janúar 2022 til september 2022.

Á tímabilinu maí til september á þessu ári hækkaði mánaðarleg greiðslubyrði um 38.348 krónur.

MánuðurAfborgunHækkun milli mánaða
Janúar 2022157.318 kr.
Febrúar 2022163.870 kr.6.552 kr.
Mars 2022163.870 kr.0 kr.
Apríl 2022167.818 kr.3.948 kr.
Maí 2022175.828 kr.8.010 kr.
Júní 2022175.828 kr.0 kr.
Júlí 2022182.090 kr.6.262 kr.
Ágúst 2022193.109 kr.11.019 kr.
September 2022214.176 kr.21.067 kr.

Á þessum níu mánuðum gerðist það einungis tvisvar að afborgunin hækkaði ekki milli mánaða. Mesta mánaðarlega hækkun á tímabilinu janúar til september var 21.067 krónur.

„Þetta hlýtur að enda illa fyrir heimilin í landinu. Þetta gengur ekki mikið lengur,“ segir lántakinn. Umfjöllunina má lesa í heild sinni í nýju helgarblaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -