Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Mannréttindadómstóllinn krefur ríkið svara vegna Nöru Walker: Tungubitið sagt sjálfsvörn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Á einum tímapunkti, eftir áfrýjunardóminn, var ég algjörlega í molum… vegna niðurstöðu dómsins, en líka vegna þess hvernig lögreglan kom fram við mig í aðdraganda hans.“

Þetta segir Nara Walker, áströlsk kona sem árið 2017 beit tungu þáverandi eiginmanns síns í sundur. Hjónin fyrrverandi höfðu verið búsett á Íslandi í um ár þegar atvikið átti sér stað, þar sem eiginmaðurinn hafði þegið starf hér á landi.

 

Föst í vítahring einangrunar og ofbeldis

Nara hlaut 12 mánaða fangelsisdóm í héraðsdómi fyrir líkamsárás og stórfellt ofbeldisbrot í nánu sambandi, þar af 9 mánuði skilorðsbundna. Frá upphafi bar hún fyrir sig sjálfsvörn og hefur ávallt haldið því fram, við lögreglu, fyrir dómi og í fjölmiðlum, að hún hafi verið fórnarlamb andlegs, líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis af hálfu þáverandi eiginmanns síns. Það hafi staðið yfir frá því fljótlega eftir að samband þeirra hófst. Hún hafi verið föst í vítahring einangrunar og ofbeldis.

Nú er Nara ein þeirra níu kvenna sem hafa kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Allar saka þær ríkið og yfirvöld um að hafa brugðist þeim og ekki verndað þær gegn kynbundnu ofbeldi. Þær eiga það sameiginlegt að hafa kært ýmist nauðganir, heimilisofbeldi eða kynferðislega áreitni en yfirvöld látið mál þeirra niður falla.

Mannréttindadómstóll Evrópu. Mynd: EPA.

 

Rannsökuðu „tungubitið“ í tómarúmi

Nara sakar íslenska ríkið um að rannsókn málsins hafi bara snúið að „tungubitinu“; að það hafi verið rannsakað í algeru tómarúmi og ekki í neinu samhengi við ásakanir hennar á hendur fyrrum eiginmanni sínum. Hún segir að frá upphafi hafi sögu hennar ekki verið gefinn gaumur. Nara segir ennfremur að þetta sé algeng reynsla kvenna sem segja frá ofbeldi gegn sér: „Við segjum; „hann sagði, hún sagði, orð gegn orði“, en í raun og veru er það oft bara; „hann sagði“.“

- Auglýsing -

Nara var handtekin á vettvangi þegar lögreglu bar að garði þetta kvöld í nóvember árið 2017. Að hennar sögn reyndi hún strax að útskýra stöðuna; að þetta hafi verið sjálfsvörn og að hún væri í raun þolandi ofbeldis, en á hana hafi ekki verið hlustað. Í kjölfarið hafi hún setið í 15 klukkustundir í fangaklefa áður en hún var yfirheyrð. Nara segist allan tímann sem hún sat í gæsluvarðhaldi hafa verið þess fullviss að hún yrði sýknuð, þar sem hún hafi verið fórnarlamb langvarandi ofbeldis af hálfu eiginmannsins. Svo fór ekki. Eftir áfrýjun þyngdi Landsréttur dóminn í 18 mánuði, þar af 15 mánuði skilorðsbundna.

Dómurinn var mjög umdeildur á sínum tíma og var undirskriftalisti til að mynda sendur til Alþingis til stuðnings Nöru. 43 þúsund manns skrifuðu undir hann.

 

- Auglýsing -

Skýtur skökku við í jafnréttisparadís

Í samtali við The Guardian veltir Nara fyrir sér þeirri stöðu sem nú er uppi; að níu konur séu að kæra íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Að það land sem stillt er upp sem besta búsetustaðnum fyrir konur í heiminum í dag sé ekki að rannsaka og ákæra í málum er varða ofbeldi gegn konum.

„Ef við, í þessari svokölluðu paradís, þurfum að þola þetta… hvernig er staðan þá í öðrum löndum?“ spyr Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi og einn stofnenda Stígamóta. Guðrún segir að á Íslandi veigri konur sér við því að kæra ofbeldi gegn sér og að á milli 70 til 85 prósent ofbeldisbrota gegn konum séu látin falla niður af lögreglu eða ákæruvaldinu, áður en málin komast fyrir dómstóla.

Nara er nú búsett í Ástralíu og segir mál sitt fyrir Mannréttindadómstólnum eitt af því fáa sem enn tengi hana Evrópu. Hún segir áföll og streitu síðustu ára aldrei langt undan, það búi með henni; nær yfirborðinu á slæmum dögum en fjær huga hennar á þeim góðu. „Ég á augnablik þar sem mér líður vel… og svo koma tímar þar sem allt er hörmulegt og mér líður eins og það sé enginn tilgangur,“ segir Nara.

Mannréttindadómstóll Evrópu krefur íslenska ríkið nú svara í máli Nöru Walker. Ríkið hefur fram í miðjan febrúar til þess að svara en eftir það mun dómurinn komast að niðurstöðu sinni. Ríkinu er gert að sök að hafa brotið gegn ákvæði Mannréttindasáttmálans um bann við pyntingum og ómannúðlegri meðferð eða refsingu. Einnig að hafa brotið gegn jafnræðisreglu Mannréttindasáttmálans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -