Mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar varð þegar flugvél Flugfélags Íslands flaug á Hestfjall innst í Héðinsfirði þann 29. maí árið 1947. Allir sem voru um borð í vélinni, 25 manneskjur, létu lífið. Farþegarnir voru 21, þar af þrjú börn, og áhöfnin taldi fjóra.
Flugvélin var á leið til Akureyrar þegar slysið varð við slæm skilyrði. Þoka og dimmviðri var mikið og vélin fannst ekki fyrr en daginn eftir í fjallshlíðunum. Hún var afar illa farin þegar komið var að; öll í tætlum og lík farþega á víð og dreif.
Hér að neðan fara útdrættir úr dagblöðum þar sem sagt var frá hörmulegu slysinu sem skók samfélagið.
Strax greint frá nöfnum hinna látnu
Föstudaginn 30. maí árið 1947 er sagt frá því í blaðinu Verkamaðurinn að flak flugvélarinnar hafi fundist, en að mjög erfitt hafi verið að komast á slysstaðinn í bröttum og klettóttum fjallshlíðunum. Strax er þarna greint frá nöfnum hinna látnu en eins og við þekkjum í dag þykir það ekki til siðs lengur af tillitsemi við aðstandendur að nafngreina látna aðila mjög skömmu eftir slys.
Þau sem létust í flugslysinu voru:
Farþegar:
Bryndís Sigurðardóttir, Reykjahlíð, Mývatnssveit.
Brynja Hlíðar, lyfjafræðingur, Akureyri.
Garðar Þorsteinsson, alþingismaður, Vesturgötu 19, Rvík.
Guðlaug Einarsdóttir, Túngötu 25, Siglufirði.
Gunnar Hallgrímsson, tannlæknir, Akureyri.
Jens Barsnes, Norðmaður, Húsavík.
Jóhann Guðjónsson, Eyrarbakka.
Júlíana Arnórsdóttir frá Ufsum í Svarfaðardal. Með henni var sonur hennar, Árni Jónsson, 4 ára.
María Jónsdóttir, Kaldbak við Húsavík.
Rannveig Kristjánsdóttir, Eyrarveg 11, Akureyri.
Saga Geirdal frá Grímsey, Klapparstíg 3, Akureyri.
Sigurrós Jónsdóttir, Hörgárbraut 3, Akureyri.
Sigurrós Stefánsdóttir frá Skógum á Þelamörk.
Stefán Sigurðsson, deildarstjóri KEA, Hafnarstræti 90.
Tryggvi Jóhannsson, vélaverkfræðingur hjá Hitaveitunni, Erna Jóhannsson, og synir þeirra hjóna, Gunnar, 4 ára, og Tryggvi, eins árs.
Þorgerður Þorvarðardóttir húsmæðraskólakennari, Túng. 49, Rvík.
Þórður Arnaldsson, Þrúðvangi, Akureyri.
Áhöfn flugvélarinnar:
Kristján Kristinsson, flugmaður.
Georg Thorberg Óskarsson, 2. flugmaður.
Ragnar Guðmundsson, loftskeytamaður.
Sigríður Gunnlaugsdóttir, flugfreyja.
Mikil þoka og dimmviðri
„Flugvélin lagði af stað frá Reykjavík kl. 11.25 í gærdag, en þar sem nokkur þoka var á, flaug hún með ströndum fram, en ekki beint yfir hálendið, eins og venja er, þegar bjart er veður. Kl. 12.80 hafði flugvélin samband við talstöðina á Akureyri, og sagðist þá vera yfir Skagafirði, og nokkrum mínútum síðar heyrðist enn til hennar héðan, en þá gaf hún ekki upp stöðvarákvörðun. Kl. 12.45 sást til hennar frá Siglufirði og flaug hún þá austur yfir Siglunes og mjög lágt, því að alldimm þoka var á. Síðan spurðist ekkert til hennar og hún svaraði ekki stöðinni hér. Var þá þegar farið að óttast um hana og bátar fengnir frá Ólafsfirði og Dalvík til að leita hennar og flokkar leitarmanna hófu einnig leit í landi og flugvél var fengin frá Keflavíkurflugvellinum. En ekkert bar árangur.“ (Verkamaðurinn, 30. maí 1947)
Aðstæður afar erfiðar
Sagt er frá því hvernig þrjár flugvélar frá Flugfélagi Íslands hafi þennan morgun verið sendar af stað til þess að leita að flugvélinni. Loks hafi leitarmenn einnar vélarinnar séð í flakið í klettaskoru í Hestfjalli í um 100 metra hæð frá sjó. Strax þótti ljóst að áhöfnin hefði farist, þar sem greinilegt var að kviknað hefði í vélinni við áreksturinn við fjallið. Klukkan 9 um morguninn komst björgunarsveit á staðinn og henni til aðstoðar vélskipið Atli. Aðstæður voru afar erfiðar en þennan dag voru líkin smám saman flutt um borð í Atla og þeim siglt til Akureyrar.
„Þetta er langstærsta og ægilegasta flugslys, sem orðið hefur hér á landi og hefur lostið alla þjóðina harmi og skelfingu. Harðast hefur Akureyri orðið úti í þessu sviplega mannfalli, þar sem þriðjungur farþeganna var héðan úr bænum og ríkir nú þungur harmur á fjölmörgum heimilum og fánar hafa verið dregnir í hálfa stöng um allan bæinn.“ (Verkamaðurinn, 30. maí 1947)
Farþegar veifuðu til fólks rétt fyrir brotlendingu
„Ekki er nokkur vafi talinn á því, að þetta hörmulega slys hafi borið að allt í einu og að þeir, sem í vjelinni voru, hafi látist undir eins er flugvjelin skall á hamraveggnum. Sprenging mun hafa orðið í vjelinni um leið og hún rakst á fjallið og eldur komið upp í henni. Það styrkir þá trú, að slysið hafi borið bráðan að, að ekkert heyrðist í loftskeytatækjum vjelarinnar, eftir að hún var á Skagafirði og talaði við Akureyri.
Flugvjelin flaug lágt yfir Siglunes og er hún fór yfir Reyðarárbæinn, sem stendur norðvestan undir nesinu, veifuðu farþegar til fólksins, sem stóð úti og horfði á flugvjelina fljúga yfir. Skygni var þá um einn kílómetri, en rjett í því rak yfir þokumökk og syrti í lofti.
Það verður að sjálfsögðu ekkert sagt með neinni vissu hvernig þetta sviplega flugslys bar að. Ljóst er aðeins að það er dimmviðri sem er orsök þess. En flugfróðir menn hallast að þeirri skoðun, að er flugvjelin kom fyrir mynni Hjeðinsfjarðar, hafi þokan verið svo svört, að flugvjelin hafi ekki treyst sjer til að halda inn á Eyjafjörð og því snúið við og þá beygt til hafs til að forðast fjöllin. En til þess að geta áttað sig á Siglunesinu, varð hann að komast eins nálægt því og unt var. Við þetta getur flugvjelin hafa borist fyrir norðaustan vindinum inn í mynni Hjeðinsfjarðar og lent á fjallinu. Er þetta að sjálfsögðu getgáta, þar sem enginn er til frásagnar um atburðinn.
En það styrkir trú manna að þannig hafi þetta verið, að flugvjelin liggur þannig í klettaskorunni, að hún snýr upp á við, sem bendir til þess að flugmennirnir hafi orðið varir við fjallið á síðustu stundu, og þá reynt að stefna flugvjelinni svo að segja beint upp í loftið til að reyna að forðast árekstur, en það hafi þá orðið um seinan.“ (Morgunblaðið, 31. maí 1947)
Íslendingar harmi lostnir
Í Þjóðviljanum, tveimur dögum eftir slysið, er því velt upp hve nöturlega vön við Íslendingar vorum sjóslysum. Hins vegar hafi fólk ekki átt von á að heyra af mannskæðu flugslysi.
„Í dag koma blöðin enn einu sinni út í sorgarbúningi, flytjandi fregn um hryllilegt slys. Og allir Íslendingar eru harmi lostnir. En það er ekki sjóslys, sem veldur harmi þeirra að þessu sinni, heldur flugslys. Áður hafa orðið flugslys hér á landi, en þetta er þeirra langmest og hörmulegast. Það eru jafnvel líkur til, að miðað við fólksfjölda hafi hjá engri annarri þjóð orðið slíkt flugslys sem það, er nú hefur orðið hjá okkur Íslendingum.“ (Þjóðviljinn, 31. maí, 1947)
Því er lýst hvernig flugvélin hafi lagt af stað frá Reykjavík þennan morgun og allt verið í himnalagi.
„Eftir rúma klukkustund er gert ráð fyrir, að hún lendi á Akureyrarvellinum og farþegarnir þá komnir á áfangastað heilu og höldnu, – eftir rúma klukkustund rekst flugvélin á fjallshlíð og allir, sem í henni eru, láta lífið, 25 manns, á einu augabragði.
Það hafa oft orðið svipleg og hörmuleg sjóslys við Ísland, en sjaldan jafn svipleg né hörmuleg og þetta flugslys. Flest af því fólki, sem þarna beið bana, var í blóma lífsins. Meðal farþeganna voru ung hjón með tvo kornunga syni sína, og ung móðir með son sinn fjögurra ára. Dauðinn birtist stundum þar sem lífið virðist standa föstustum fótum.“ (Þjóðviljinn, 31. maí 1947)