Hún hefur sigrað hverja danskeppnina af annarri í mörg ár og dansar nú í gegnum
lífið með dansfélaga sínum og eiginmanni. Hanna Rún Bazev Óladóttir talar um
æskuna, dansinn, eineltið og kjaftasögurnar sem tengjast oft afbrýðisemi, ástina,
tímabundu lömunina í öðrum fætinum, gigtina og Rússland. Hér er brot úr viðtalinu.
„Þá hrúguðust inn heilu ritgerðirnar frá alls konar fólki sem ég þekki ekki neitt sem vildi bara biðjast fyrirgefningar.“
Hanna Rún segir að á fullorðinsaldri hafi hún fengið fullt af skilaboðum frá fólki og einnig skilaboð frá gömlum bekkjarfélögum. Gömul bekkjarsystir fór að gráta og bað hana afsökunar fyrir að hafa tekið þátt í eineltinu og sagði að þetta hefði truflað sig lengi. „Hún sagði að hana hefði langað svo mikið í alla þessa kjóla og að vera svona flott og svo fékk ég svo mikla athygli í blöðunum. Hún sagðist geta sagt það núna en hún hafði verið að deyja úr afbrýðisemi og langaði til að vera ég. Ég sagði að þetta væri ekkert mál og fannst bara yndislegt að hún hafi þorað að segja mér frá þessu og kunni virkilega að meta það. Svo eftir að ég opnaði Instagram-reikninginn minn hrúguðust inn heilu ritgerðirnar frá alls konar fólki sem ég þekki ekki neitt sem vildi bara biðjast fyrirgefningar. Á Instagraminu mínu sér fólk mig meira bara eins og ég er og sér að ég er bara frekar venjuleg. Fólk er oft mjög fljótt að dæma eftir útliti eða eftir einhverju sem það hefur heyrt. Ég fékk til dæmis skilaboð frá manneskju sem skrifaði að henni væri sama hvort ég læsi þetta eða ekki en hún þyrfti að gera þetta fyrir sig af því að henni hafi liðið illa eftir að vera búin að fylgjast með Instagram-story hjá mér í einhvern tíma, og væri farið að þykja vænt um mig, og fyrir löngu síðan hafi hún tekið þátt ljótri umræðu um mig sem hún vissi að væri ekki sönn og að hún væri búin að sjá að ég er góð manneskja og liði illa yfir þessu og vildi bara losa sig við þetta. Ég þakkaði henni bara kærlega fyrir og skrifaði að þetta væri ekkert mál. Fólk gerir svo sem alveg mistök og ég var mjög ánægð að fá þessi skilaboð; mér leið vel að lesa þau og henni leið vel. Ég er löngu hætt að taka inn á mig svona baktal eða einhver ljót komment; maður er kominn með nokkuð þykka brynju eftir öll þessi ár.“
Hanna Rún segir að enn sé fólk sem reyni að skemma fyrir henni í dansinum. „Það hafa komið tímar þar sem ég hugsa með mér hvort það sé þess virði að halda áfram að dansa, og bara hætta þessu. Gefa skít í þetta. En þá minni ég mig á að ég mun ekki láta svona bull „skemma“ eftir alla þessa vinnu í öll þessi ár. Þá er það bara að anda inn og svo út aftur og áfram gakk.“
„Ég fann að það pirraði suma kennara mikið þegar ég fékk leyfi til að fara í æfingabúðir og keppa.“
Hanna Rún er spurð hvort þetta einelti – þessi útilokun – hafi haft áhrif á námið. „Ég get ekki sagt að ég hafi verið toppnemandi með geggjaðar einkunnir. Ég get verið góð í því sem ég hef gaman að. Ég elskaði til dæmis tungumál en ef ég hafði engan áhuga, eins og á landafræði, nennti ég ekkert mikið að hlusta og teiknaði frekar myndir af danskjólum í bækurnar eða skrifaði niður punkta um það sem ég ætlaði að vinna í á æfingunni þann dag. Ég fann að það pirraði suma kennara mikið þegar ég fékk leyfi til að fara í æfingabúðir og keppa. Ég gleymi því ekki þegar einn kennari sagði við mig að ég þyrfti að vera í skóla og læra eins og venjuleg manneskja. Ég sagðist ætla að verða dansari og dansa þegar eg yrði stór og vildi ekki fara í menntaskóla en þá sagði kennarinn að ég vissi aldrei nema ég myndi lenda fyrir bíl og missa báða fæturna og spurði hvað ég myndi gera þá. Ég hafði alveg svörin og sagðist þá bara ætla að vinna hjá pabba í Gullsmiðju Óla sem ég geri svo að vísu í dag með dansinum. Ótrúlegt en satt þá náði ég samræmdu prófunum og skólastjórinn meira að segja hrósaði mér fyrir að hafa náð öllu þrátt fyrir að hafa verið á öllum þessum keppnisferðalögum. Ég missti svo rosalega mikið úr en ég var með skólabækurnar með mér á ferðalögum.“
Viðtalið við Hönnu Rún má lesa í heild sinni í vefútgáfu nýjasta tímarits Mannlífar, hér.