„Við erum að sjá margra milljarða króna hagnað hjá þessum stærstu matvöruverslanakeðjum; bæði hjá Högum og Festi og eins var góð afkoma hjá Samkaupum. Og þetta eru svona þessir þrír stærstu turnar,“ segir Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ í samtali við Vísi.
ASÍ segir það skjóta skökku við að matvöruverslanir hækki verð á vörum sínum á sama tíma og þær skili inn margra milljarða króna hagnaði. Eigendur Haga stefna að því að greiða sér út tvo milljarða í arð í ár.
Á einu ári hefur matur og drykkjarvara hækkað um 5,2 prósent og búvara án grænmetis mest, eða um 7,7 prósent.
Ef spár bankanna ganga eftir gætu stýrivextir svo hækkað um allt að eitt prósentustig í vikunni.
Ekki val um annað en að hækka smásöluverð
Finnur Oddsson, forstjóri Haga, sagði á uppgjörskynningu Haga síðasta föstudag að fyrirtækið hefði ekki val um annað en að hækka smásöluverð í ljósi aðstæðna.
„Ef við myndum ekki bregðast við yrðum við fljótt komin í þá stöðu að vera á skjön við lög, við megum ekki selja vörur undir kostnaðarverði og verðhækkanirnar eru bara það miklar að framlegðin hefur ekki undan,“ sagði Finnur.
Í nýútgefnum ársreikningi Haga, sem á Bónus, Hagkaup og Olís kemur fram að hagnaðurinn hafi numið fjórum milljörðum króna og að í ár verði greiddur út rúmlega tveggja milljarða króna arður til hluthafa fyrirtækisins.