Margrét Guðnadóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Miðstöðvar í öldrunarfræðum en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
„Miðstöðin er starfrækt undir heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands í samvinnu við Landspítala. Hún hefur það að markmiði að efla nýsköpun og þróun í þjónustu við eldra fólk, meðal annars með því að styrkja samstarf fræðimanna á sviði öldrunarfræða og safna saman á einn stað heildstæðum upplýsingum um stöðu eldra fólks á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.
„Rekstur miðstöðvarinnar byggir á stuðningi heilbrigðisráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, auk tekna frá rannsóknarverkefnum.
Margrét er hjúkrunarfræðingur með doktorspróf í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í heimahjúkrun. Hún hefur unnið að rannsóknum og þróun á samþættri þjónustu fyrir eldra fólk og fjölskyldur þeirra. Hún hefur stöðu lektors við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og var áður kennslustjóri í heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg.“