- Auglýsing -
Ef ekkert breytist næstu tvo daga verður Margrét Sigríður Guðmundsdóttir, sextugur MS-sjúklingur, á götunni á fimmtudaginn. Þá missir hún húsnæði sitt sem var skammtavistun á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Á sama tímapunkti mun Margrét þar að auki standa eftir aðhlynningarlaus.
„Það bíður hennar ekki neitt,“ segir Flóki Ásgeirsson, lögmaður Margrétar, sem bendir á að bæði ríki og sveitarfélög hafi engin úrræði til að bjóða henni.
Margrét hefur glímt við MS sjúkdóminn í níu ár og þarf mikla aðhlynningu. Líkt og Mannlíf greindi frá hefur hún í næstum tvö ár búið á hjúkrunarheimili fyrir aldraða, þar sem meðalaldur íbúa er miklu hærri en hennar. Hún fær einfaldlega ekki húsnæði við sitt hæfi.
Margrét byrjaði að veikjast árið 2005 og greindist ekki með MS fyrr en árið 2013. „Það var endalaust verið að leita að orsökum veikindanna og enginn vissi hvað var að gerast. Í viðtali við Mannlíf segir Margrét að stundum hafi hún misst vonina síðustu misserin og fundist allt vera tilgangslaust. „Mér leið alls ekki vel. Í fyrsta lagi er maður að berjast við þennan sjúkdóm og allt sem tilheyrir honum og ofan á það allt saman kemur náttúrlega baráttan við þetta kerfi og maður er endalaust að vesenast í þessu. Ég geri mér vonir um að húsnæðismálin breytist,“ segir Margrét.