María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4 á Akureyri, náði að sækja sér 100 milljóna styrk úr ríkisstjóri vegna reksturs sjónvarpsstöðvarinnar. Athygli vekur að mágur hennar, framsóknarmaðurinn Stefán Vagn Stefánsson, situr ekki aðeins á þingi heldur situr hann í meirihluta fjárlaganefndar sem veitti mágkonunni styrkinn myndarlega.
Kjarninn greinir frá því að N4 hafi náð fram þessum 100 milljóna ríkisstyrk með því að biðja einfaldlega um hann. Og sú beiðni fór fyrir fjárlaganefndina, þar sem Stefán mágur var meðal þeirra sem afgreiddi umsóknina.
Meirihluti fjárlaganefndar samanstendur af þingmönnum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Stefán Vagn er þar annar af tveimur fulltrúum Framsóknarmanna. Meirihlutiinn ákvað að veita 100 milljón króna framlag úr ríkissjóði til N4 „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð“.
Meirihlutann skipa Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, Haraldur Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir og Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokki og Þórarinn Ingi Pétursson og Stefán Vagn Stefánsson úr Framsóknarflokki.
María Björk sendi styrkbeiðnina til fjárlaganefndarinnar 1. desember síðastliðinn en hana má ekki finna á vef þingsins. Milljónirnar hundrað eru ætlaðar fyrir sjónvarpsstöðina á næsta rekstarári. N4 er meðal annars í eigu KEA, Kaupfélags Skagfirðinga og Síldarvinnslunnar. Stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji, eitt stærsta fyrirtæki landsins sem er með höfuðstöðvar á Akureyri.
N4 hefur einmitt framleitt kostað efni fyrir Samherja og ýmsa aðra aðila. Í fyrra var svo helsti dagskrárgerðarmaður N4, Karl Eskill Pálsson, ráðinn í starf upplýsingafulltrúa Samherja.
Síðla árs 2020 ræddi María Björk ástríðu sína fyrir rekstri N4 og sagðist jafnframt vera ástfangin upp rjáfur af eiginmanni sínum, Ómari Braga Stefánssyni, bróður Stefáns Vagn Framsóknarþingmanns.
„Ég brenn fyrir þessu starfi, það er svo áhugavert! Við gætum verið hvar sem er á landinu og tökum efni alls staðar að. Mesti vöxtur í fjölmiðlun í heiminum er einmitt frá svona svæðismiðlum. Við þráum að heyra sögur og við viljum heyra góðar sögur. Það er kannski leiðarljósið mitt; segjum góðar sögur, tölum við venjulegt fólk og sýnum breiddina í lífinu hvar sem er á Íslandi. Ég er ekki enn farin á Reykjavíkurmarkað, en kannski förum við þangað,“ sagði María.