Fram kemur á Stundinni að María Heimisdóttir hefur sagt upp störfum sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands; er þar vísað í bréf sem María sendi samstarfsfólki sínu.
Hún telur sig ekki geta sinnt starfi forstjóra lengur vegna vanfjármögnunar stofnunarinnar; segir María að framlög til SÍ hafi lækkað síðan 2018 miðað við fast verðlag.
Í grein Stundinni kemur jafnframt fram að María hafi tilkynnt stjórn Sjúkratrygginga á fimmtudag að hún hafi sent heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, uppsagnarbréf:
„Það hefur ekki tekist að styrkja rekstrargrundvöll hennar til að ná ásættanlegum árangri; að við getum rækt lögboðnar skyldur okkar með sóma og boðið samkeppnishæf laun.
Við þessar aðstæður treysti ég mér því miður ekki til að bera ábyrgð á okkar mikilvægu verkefnum,“ segir María í bréfinu áðurnefnda.