Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Marínó um svör Ásgeirs í morgun: „Fattararnir í mér virka stundum illa og núna fóru þeir í kleinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Marínó G. Njálsson gefur lítið fyrir svör Seðlabankastjóra í morgun og segir hann roðna undan spurningunum.

Starfsmenn Seðlabankans sátu fyrir svörum í morgun á fundi um ákvörðun Peningastefnunefnda um að hækka stýrivexti um hálft prósentustig. Marínó G. Njálsson, fyrrverandi formaður Hagsmunasamtaka Heimilanna skrifaði langa færslu á Facebook fyrir stundu. Þar gefur Marínó lítið fyrir svör Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra og Þórarins G. Péturssonar en segist hálf vorkenna þeim félögum „þegar þeir voru að umla sig í gegn um svörin sín.“

Færsluna má lesa í heilds inni hér fyrir neðan:

„Var að hlusta á upptöku af fundi um ákvörðun Peningastefnunefndar. Erna Björk Sverrisdóttir, Arion banka, grillaði seðlabankafólkið með spurningum sínum og hef ég ALDREI séð eins beinskeittum spurningum beint að seðlabankastjóra og aðalhagfræðingi. Hef þó fylgst með þessum málum í ansi mörg ár. Þriðji fulltrúi Seðlabankans á fundinum var Rannveig Sigurðardóttir og lét hún þá félaga sína líta heldur illa út. Svör hennar skýr, beint að efninu og ekkert tafs.

Maður hálf vorkenndi Þórarni G. Péturssyn og Ásgeiri Jónssyni, þegar þeir voru að umla sig í gegn um svörin sín. Þórarinn svaraði fyrst, sagði lítið og sendi heitu kartöfluna eins fljótt og hann gat til Ásgeirs. Spurning Ernu til Þórarins var þó ekki flókin: Hver væru áhrif verri upphafsstöðu á ákvörðun nefndarinnar? (Verulega stytt.)
Svar Þórarins var þvílík steypa, að annað eins hefur bara ekki heyrst. Hann hélt því fram „að margar af þessum opinberu hækkunum væru að koma vegna launa hækkananna“ (ekki alveg orðrétt). Hvaða bull er þetta? Hækkanir á bifreiðagjöldum tengjast launabreytingum EKKERT! Hækkun á bensíngjaldi tengist launahækkunum EKKERT! Hækkun áfengisgjalds tengist launahækkunum EKKERT! Þessi þrjú atriði vega um 0,7% af 0,85% af hækkun vísitölu neysluverðs milli desember og janúar.
Ásgeir roðnaði, eins og ég hef ekki séð hann síðan Max Keiser spurði hann óþægilegra spurninga fyrir hrun og svaraði svo rogginn: „Þetta er svo sem ekkert flókið“ og kom svo með „af því bara“ svar. Þeim hluta spurningarinnar, að hann hefði talið kjarasamningana í byrjun desember vera mjög jákvæða, svaraði hann: „Það er rétt að kjarasamningarnir voru jákvæðir fyrir fjármálastöðugleika, en á þessum fundi erum við að tala um verðstöðugleika!“ Fattararnir í mér virka stundum illa og núna fóru þeir í kleinu. Er ekki verðstöðugleiki ein af grundvallarforsendum fjármálastöðugleika og öfugt? Fæst annað án hins?
Ásgeir opinberaði þarna hvað stjórnhættir og -skipan Seðlabankans er vitlaust og óskilvirk. Innan bankans eru minnst tvær nefndir sem taka áhrifaríkar ákvarðanir fyrir hagkerfið, þ.e. Peningastefnunefnd og Fjármálastöðugleikanefnd. Þær virðast ekki starfa saman, þó seta Ásgeirs í þeim báðum eigi að tryggja eitthvað samræmi. Peningastefnunefnd ákvarðar vexti, en hefur ekki áhrif á útlánagetu bankanna. Það er nú samt þannig, að útgáfa bankanna á nýjum peningum samhliða útlánum er ein helsta ástæða aukinnar verðbólgu. Með því að setja sífellt fleiri peninga í umferð hækkar t.d. húsnæðisverð. Fáar aðgerðir hafa líklegast haft meiri áhrif á að húsnæðisverð hætti að hækka eins hratt og það gerði og þegar Fjármálastöðugleikanefnd þrengdi lánþegaskilyrðin s.l. haust. Ég legg til að þessar nefndir vinni mikið saman og séu samstíga í sínum aðgerðum.
Síðan spurði Erna spurningarinnar, sem ég hef oft spurt, þ.e. um það hve mikið af vaxtahækkunum bankans væru þegar búnar að koma fram í áhrifum á verðbólguna. Það tæki, jú, 6-18 mánuði fyrir breytingar á vöxtum bankans að koma fram.
Rannveig svaraði þessum hluta og loksins kom skýrt svar, en það vantaði bara mestan hluta þess.
Jón Bjarki spurði um flótta fólks yfir í verðtryggð lán og áhrif á Peningastefnuna. Ásgeir kom þá með skýringu sem hann ætti að skammast sín fyrir. Hann er hagfræðingur, seðlabankastjóri og situr í Peningastefnunefnd og heldur því blákalt fram að verðmæti peninga ráðist af því hvort áfengisgjald sé krónunni meira eða minna. Það er enginn að græða á því að borga 7,5% nafnvexti í 9,9% verðbólgu í staðinn fyrir að borga 3,5% nafnvexti í 2% verðbólgu. Ég hefði haldið að tap lánþegans nemi 4% af lánsfjárhæðinni. Svo er hitt, sem hann greinilega skilur ekki. Í öllum löndum heims (nema á Íslandi) er litið svo á, að verðbólga sé tækifæri til að leiðrétta skuldastöðu almennings. Þá er gert ráð fyrir, að í kjölfar hækkandi verðbólgu komi launahækkun og eftirstöðvar lána verði því lægra hlutfall launa en áður.
Erna kom aftur inn með áhugaverða spurning: Hvað þarf að gerast til að vextir hækki ekki í mars?
Rannveig svaraði og byrjaði á einstaklega áhugaverðum punkti: Hækkun vaxtanna núna er EKKI vegna verðbólgumælingarinnar í janúar! Þá vitum við það. Ætli spekingar greiningadeilda bankanna hafi vitað þetta? Síðan sagði hún, að til þess að vextir hækki ekki í mars, þá mega kostnaðarhækkanir kjarasamninga ekki fara út í verðlagið! Sem sagt verðbólgumælingin í janúar hefur ekki áhrif núna, en verðbólgumæling í febrúar mun hafa áhrif á ákvörðun nefndarinnar í mars! Það vita allir að breyting á vísitölu neysluverðs milli janúar og febrúar er nánast undantekningarlaust meiri en milli desember og janúar. Búið ykkur því undir að vextir hækki aftur um 0,25-0,5% í mars.
Merkilegt er samt það sem vantaði í þessa umræðu og svör seðlabankafólks, en það er að ein helsta ógn við kaupmátt og verðstöðugleika er kröfur um hagnað og arðgreiðslur fyrirtækja. Að hagnaður hækki ár eftir ár og mönnum finnst ekkert tiltökumál að flagga 15-20% hagnaði, er meiri ógn við verðstöðugleika, en að launakostnaður hækki úr 25% í 28% eða er það 50% í 55%. Báðar þessar hækkanir eru brot af hagnaðinum og hafa því minni áhrif til breytinga á verðlagi, en arðsemiskröfur eigenda fyrirtækjanna!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -