Íris Ellenberger er þekkt sem bæði baráttukona og fræðikona, sem er jákvætt því það er ekkert verra en þegar ófróðir taka slaginn. Íris er fædd og uppalin á Íslandi, en faðir hennar og ættarnafnið eiga rætur sínar að rekja til Sviss sem rómað er fyrir hornrétt fólk og ofurskipulagt, en þaðan kemur líka Raclette sem er svolítið mótsagnakennt, því þar er einfalt grunnstef og svo er fólk bara hvatt til að gera tilraunir og gleyma öllum uppskriftum.
Það er við hæfi að Íris hvetji okkur til að gera tilraunir í eldhúsinu, enda hefur hún alla tíð barist fyrir því að einstaklingar fái að finna sína eigin leið að hamingjunni.
„Fyrir Raclette þarf í grunninn bara þrennt: Ost, kartöflur og Raclette-grill. Allt annað, grænmeti eða kjöt, velur fólk eftir smekk og áhuga. Þegar ég var barn þá suðum við einfaldlega kartöflur, steiktum skinku ofan á grillinu og bræddum ost í skúffunum, helltum ostinum svo yfir kartöflurnar og skinkuna og borðuðum með bestu lyst. Í dag nota ég fjölbreyttara hráefni; sveppi, kúrbít, eggaldin og lauk, stundum papriku eða bara hvað sem mér dettur í hug. Það er hægt að finna sérstakan Raclette-ost í flestum sælkerabúðum landsins, en ég nota oftast venjulegan íslenskan Ísbúa sem hefur jafnvel brætt hjörtu og bragðlauka minna svissnesku ættingja.
Í lok máltíðarinnar erum við Íslendingarnir í fjölskyldunni vön að brytja banana niður í skúffurnar, setja ost yfir og láta þetta malla á grillinu. Alveg rosalega eitís samsetning, en þessa hefð fengum við að láni frá íslenskri vinkonu okkar sem hefur borðað Raclette með fjölskyldu sinni frá því að hún var barn.
Raclette var nefnilega í tísku á níunda áratugnum, svo aldrei er að vita nema að eldri fjölskyldumeðlimir eigi Raclette-grill sem rykfellur inni í geymslu og bíður bara eftir að komast aftur í notkun.“