Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Matthildur stefnir hátt í fiðluleik: „Hugsaði oft til Tenerife þegar ég óð slabbið í vetur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Matthildur Traustadóttir er 17 ára stúlka, sem myndi þiggja fleiri klukkutíma í sólarhringnum. Hún stundar af kappi nám í tveimur menntaskólum, starfar í nemendafélagi, gerir stuttmyndir, málar steina, leikur í uppsetningum leikfélagsins og stundar félagslíf af krafti. Þar að auki æfir hún að lágmarki fjóra tíma á dag á hljóðfærið sitt, en hún þykir efnilegur fiðluleikari. Á morgun heldur Matthildur tónleika í Dómkirkjunni m.a. til að safna fyrir kostnaði af þátttöku í eftirsóttu og stífu tónlistarnámskeiði í Bandaríkjunum, í sumar.

Ítalska kennitalan

Fyrsta ár ævi sinnar bjó Matthildur á Ítalíu. Foreldrar hennar störfuðu þar sem leiðsögumenn og fæddist Matthildur á ítölsku sjúkrahúsi í strandbænum Rimini við strendur Adríahafs. Í farteskinu hefur Matthildur því ítalska kennitölu. Getur þú sagt frá einhverjum minningum frá Ítalíu?

„Ég get bara sagt frá því sem foreldrar mínir hafa sagt mér, en mér er sagt að fyrstu skrefin hafi ég stigið á ströndinni og að ég hafi fengið að smakka fyrsta ísinn á eins árs afmæli mínu og þótt hann verulega góður. Síðan þá hef ég elskað ís. Þá hafa þau sagt mér að það hafi verið mikið stress að finna nafn á mig, þar sem þau vissu ekki fyrirfram að það ætti að gefa mér nafn strax við fæðingu, öðruvísi gætu ég ekki útskrifast af spítalanum. Um leið og ég kom í heiminn spurði læknirinn hvaða nafn ætti að gefa mér. Sögðust þau vera hrifin af nafninu Ronja en væru ekki alveg búin að ákveða það. Það nafn vildi læknirinn ekki taka í mál og útskýrði fyrir þeim að Ronja væri ítalskt orð yfir sjúkdóm sem legðist á hunda. Hann heimtaði því að ég fengi tignarlegra nafn og stakk upp á Viktoría. Mamma og pabbi voru ekki alveg til í það og lögðust yfir önnur nöfn og komust að endingu að þeirri niðurstöðu að ég ætti að heita Matthildur.“

Eyjan fagra

Frá Ítalíu, með stuttri viðkomu á Íslandi, lá leið fjölskyldunnar til Kanaríeyja. Þar bjó Matthildur í 13 ár, þar af 12 ár á eyjunni fögru, Tenerife. Hvernig fannst þér að alast upp á Tenerife?

- Auglýsing -

„Mér fannst það mjög gaman og hefði ekki viljað skipta því út fyrir neitt annað. Það var gott að vakna nánast alla daga í sól og blíðu, þó að ég hafi ekki alltaf getað notið góða veðursins á ströndinni. Ég flutti til Tenerife þegar ég var fjögurra ára og var fljót að læra spænsku, þar sem að ég fór strax í spænskan skóla. Mér finnst ómetanlegt að hafa spænsku sem mitt annað tungumál og ég er líka þakklát mömmu og pabba fyrir að hafa passað upp á að ég myndi ekki gleyma íslenskunni. Ég eignaðist fullt af góðum vinum til framtíðar og á ég frábærar minningar með þeim. Ég sakna mest útihátíðanna en Kanaríbúar eru mjög duglegir að vera með alls konar hátíðir á hvaða árstíma sem er. Skemmtilegasta hátíðin er klárlega kjötkveðjuhátíðin en þá er frí í öllum skólum í heila viku og fólk á öllum aldri klæðist búningum og skemmtir sér á götum úti frá morgni til kvölds.“

Fjölhæf listakona

Í spjalli við Matthildi kemur berlega í ljós að henni er margt til lista lagt. Ung að aldri ákvað hún að vinna fyrir sér með steinamálun og hefur hún árlega unnið sér inn dágóðan vasapening með sölu handmálaðra steina á Borgarfirði eystri og er lundinn þar helsta myndefnið. Í tómstundum hefur hún gert stuttmyndir og sigrað tvær stuttmyndakeppnir, aðra erlendis og hina hér heima. Þar á ofan leiddi hún ræðulið sitt til sigurs í ræðukeppni grunnskóla á Spáni. Hvað af þessu er nú skemmtilegast, Matthildur?

- Auglýsing -

„Þegar stórt er spurt! Mér finnst þetta allt mjög skemmtilegt og vildi stundum að ég hefði fleiri klukkustundir í sólarhringnum til að sinna áhugamálum mínum en ég hef líka mjög gaman af því að fara á skíði, hlaupa, synda og fara í fjallgöngur. Ég hef einnig mikinn áhuga á ljósmyndun og fór á skemmtilegt ljósmyndanámskeið á Tenerife. Mér finnst ótrúlega gaman í leiklist og dansi en ég þurfti því miður að leggja ballettskóna á hilluna vegna álags í bæði dansnáminu og fiðlunáminu. Ég var komin á þann stað að ég varð að velja. Leiklist næ ég samt að stunda og var svo heppin að fá hlutverk í leiksýningum Kvennó í fyrra og í ár, en því miður varð að fella niður sýningarnar vegna Covid. Vonandi verður sýnt á næsta ári og þá næ ég kannski einni góðri sýningu áður en ég kveð Kvennó.“

Í ár ákvað hún líka að hætta í kórnum vegna anna. En saknar Matthildur dansins og söngsins?

„Já, mjög mikið, sérstaklega dansins. Nýlega var ég til að mynda að hjálpa til við danskeppni í Borgarleikhúsinu, þar sem margir flottir dansarar komu fram, og ég fékk fiðring í magann, því mig langaði svo til þess að dansa. Ég hreinlega elska að dansa en á tímabili langaði mig að leggja dansinn fyrir mig. Hver veit, kannski fer ég aftur að dansa við tækifæri, ef tími leyfir.“

Framtíðaráform

Þegar heimsfaraldurinn skall á stóð Matthildur frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Þá óskaði fiðlukennari í eftirsóttum tónlistarmenntaskóla í Sviss eftir því að hún kæmi þangað til náms og bauð henni myndarlegan styrk. Þetta var freistandi boð en sjálfa langaði Matthildi hins vegar líka að styrkja ræturnar og fara í íslenskan menntaskóla. Hvað átti hún að velja? Tilboðið frá Sviss var vissulega freistandi en eftir að hafa leitað ráða hjá Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara og vini hennar Didda fiðlu, var þetta ekki lengur spurning í hennar huga. Hvernig náðu þeir eiginlega að sannfæra þig um að flytja til Íslands?

„Í stuttu máli sagði Víkingur Heiðar mér að njóta þess að vera ung og upplifa félagslífið á menntaskólaárunum, fara á sem flest böll og dansa sem allra mest. Því að ég hefði nægan tími til að taka mig alvarlega þegar ég væri komin í stífan tónlistarháskóla erlendis. Og svo sögðu, bæði Víkingur og Diddi, að ef ég kæmi Ísland væri Guðný Guðmundsdóttir frábær fiðlukennari og að ég yrði ekki svikin ef ég kæmist í nám hjá henni. Ég var svo heppin að Guðný tók að sér að kenna mér og er ég þeim Didda og Víkingi mjög þakklát fyrir frábærar ráðleggingar, þrátt fyrir að böllin hafi verið alltof fá.“

Eftir að hafa búið stærstan hluta ævinnar erlendis liggur beinast við að spyrja Matthildi hvort það hafi verið erfitt að flytja til Íslands eða líkt og túristarnir eru alltaf spurðir: Hvernig líkar þér við Ísland?.

„Mér líkar mjög vel á Íslandi. Auðvitað sakna ég allra vinanna á Tenerife en er heppin að hafa líka eignast nýja og góða vini hér. Þó viðurkenni ég að ég sakna mjög góða veðursins og hugsaði oft til Tenerife þegar ég óð slabbið í myrkrinu á leið í skólann í vetur. En ég elska snjóinn og það mættu vera fleiri fallegir snjódagar.“

Fiðlan er framtíðin

Matthildur stefnir á að verða fiðluleikari og í sumar komst hún inn í hinn eftirsótta sumartónlistarskóla Meadowmount í Bandaríkjunum, sem er einn kröfuharðasti þar í landi. Til að geta sótt námið hefur Matthildur ákveðið að efna til fjáröflunartónleika í Dómkirkjunni, kl. 18, á morgun, föstudag 6. maí. Á efnisskrá eru mörg meistaraverk tónbókmenntanna.

„Mér datt í hug að halda þessa tónleika, bæði til að loka skólaárinu og eins til fjáröflunar fyrir sumarnámið. En ég viðurkenni að ég áttaði mig ekki alveg á því hvað þetta er mikil vinna þar sem ég hef æft stíft undanfarnar vikur meðfram öllu hinu, meðal annars ritgerðarskrifum, verkefnum og prófum í tveimur menntaskólum en ég hlakki mikið til tónleikanna. Ég hlakka til að hitta sem flesta.“

Mannlíf hvetur fólk til að mæta í Dómkirkjuna á morgun klukkan 18 og heyra tónlist þessa unga og efnilega fiðluleikara. Jane Ade Sutarjo píanóleikari leikur með Matthildi í nokkrum verkanna. Það kostar ekkert inn á tónleikana, en fólki er frjálst að láta eitthvað af hendi rakna til styrktar námi Matthildar við Meadowmount-tónlistarskólann í sumar.

Reikningur: 0331-26-240804

Kennitala: 240804-3440

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -