Matvælaráðuneytið hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðli Staðlaráðs Íslands segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu.
Jafnlaunavottunin staðfestir að innan ráðuneytisins er unnið markvisst gegn kynbundnum launamun og þar með stuðlað að jafnrétti kynjanna að sögn stjórnarráðsins. Þannig sé komið í veg fyrir beina og óbeina mismunun á grundvelli kyns og jafnframt hafi verið komið á stjórnkerfi sem tryggi faglega nálgun við ákvarðanatöku um launasetningu og launajafnrétti í samræmi við jafnlaunastefnu Stjórnarráðsins.
Ekki eru allir sammála um mikilvægi jafnlaunavottunar en Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ítrekað gagnrýnt vottunina. „Jafnlaunavottun er ekki bara kostnaðarsamur baggi á atvinnulífinu og opinberum stofnunum heldur hreinlega skaðvaldur. Fyrirtæki og stofnanir sem hafa þessa dyggðaskreytingu geta hreinlega komist upp með að mismuna starfsfólki sínu, enda með það uppáskrifað að það sé allt upp á tíu hjá þeim í jafnlaunamálum. Þetta er alger hneisa,“ sagði þingkonan umdeilda á Alþingi snemma á síðasta ári.
„Það er vissulega fagnaðarefni að ráðuneytið hafi öðlast jafnlaunavottun,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson matvælaráðherra. „Vottunin er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. desember sl. þar sem m.a. er lögð áhersla á að jafna stöðu og réttindi allra.“