Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Meinað að kjósa í rússnesku forsetakosningunum í Reykjavík: „Ég er lögin hér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rússnesk kona sem búið hefur á Íslandi í 20 ár, fékk ekki að kjósa í forsetakosningum um helgina hjá ræðisskrifsstofu Rússlands í Reykjavík.

Lada Cherkasova-Jónsson, sem búið hefur á Íslandi í um 20 ár, er gift íslenskum manni og er bæði rússneskur og íslenskur ríkisborgari, segir farir sínar ekki sléttar eftir að hafa reynt að kjósa í forsetakosningunum í Rússlandi, í ræðisskrifsstofu Rússlands í Reykjavík. Var henni einfaldlega neitað að kjósa.

Ekkja Alexey Navalny, Yulia, bað stuðningsfólk hans að mótmæla Vladimir Putin á friðsamlegan hátt með því að mæta á kosningaskrifstofur klukkan 12 á sunnudegi, alls staðar í heiminum og hlýddi fjöldinn allur af fólki kallinu. Þar á meðal í Reykjavík. Löng röð myndaðist við ræðisskrifstofu Rússlands er fólk streymdi að til að kjósa klukkan 12 á hádegi í gær. Ein þeirra, Lada Cherkasova-Jónsson, segist í samtali við Mannlíf, ekki hafa fengið að kjósa, vegna þess að vegabréf hennar var útrunnið en samkvæmt rússneskum lögum má fólk kjósa þrátt fyrir útrunnið vegabréf, enda missir fólk ekki ríkisborgararétt sitt þó vegabréfið renni út. „Það sem gerðist í gær. Ég veit að rússnesk yfirvöld eru algjörlega blygðunarlaus en þetta keyrði um þverbak,“ sagði Lada í samtali við Mannlíf. Og hélt áfram. „Ég ætlaði í fyrstu ekki að mæta en ákvað svo að sína stuðning og mæta [á slaginu 12 eins og ekkja Navalny bað um – innskot blaðam.]. Ég bað eiginmann minn um að koma með, ef ske kynni að eitthvað myndi gerast.“

Í Rússlandi hefur fólk tvö vegabréf, eitt til að nota innanlands og annað til að ferðast utanlands. Innanlandsvegabréfið þarf að endurnýja með nokkuð löngu millibili. Lada átti að endurnýja sitt við 45 ára aldurinn en hefur ekki farið til Rússlands frá því að stríðið hófst og hefur því ekki látið endurnýja það. Samkvæmt rússneskum lögum má fólk kjósa þó innanlandsvegabréfið sé útrunnið, fólk þarf bara að endurnýja það næsta þegar það kemur til landsins, búi það erlendis. Bæði vegabréf Lödu eru útrunnin.

Þegar Lada mætti á ræðisskrifstofuna í Reykjavík í gær spurði hún starfsmenn þar hvort hún mætti ekki örugglega kjósa, þó vegabréfið væri útrunnið en hún skildi innanlandsvegabréfið eftir heima enda á það ekki að þurfa svo hægt sé að kjósa. „Þeir sögðu bara nei. Þannig að við kíktum á internetið og fórum á síðu sem sýnir lögin í Rússlandi og þar kemur fram að hæstiréttur Rússlands leyfir fólki að kjósa þó að vegabréfið sé útrunnið.“ Aðeins var einum kjósanda hleypt inn í einu þannig að Lada bankaði á dyrnar og þegar starfsmenn opnuðu dyrnar spurði hún þá á hvaða grundvelli þeir væru að neita henni um að kjósa. „Ég er með vegabréfið, jú það er útrunnið en ég er ennþá rússneskur ríkisborgari. Þeir sögðu bara að ég mætti ekki kjósa en ég sýndi þeim vefsíðuna með rússnesku lögunum en einn starfsmannanna sagði við hana: „Það skiptir engu máli hvað þú lest á internetinu“. Ég sagði þeim að kíkja á þessi rússnesku lög. Þeir sögðu mér að bíða og lokuðu dyrunum. Hálftíma seinna opnuðu þeir dyrnar og sögðu að ég mætti ekki kjósa. Ég sagðist vita það en að ég þyrfti að vita af hverju ég mætti það ekki. Að ég þyrfti að sjá lagabókstafinn sem bannaði mér að kjósa. Þeir lokuðu hurðinni aftur og annar hálftími leið. Þá opnaði maður dyrnar, sem leit ekki út fyrir að vera ræðismaður, hann leit frekar út eins og dulbúinn lögreglumaður og sagði mér að koma inn. Hann leyfði mér ekki að taka símann með eða neitt, þannig að ég gat ekki tekið þetta upp. Hann sagði mér að sýna sér vegabréfið og spurði svo hvar innanlandsvegabréfið væri.“ Lada sagði manninum að hún hefði skilið það eftir heima, enda hafi henni ekki dottið í hug að hún þyrfti þess vegna þess að hún væri rússneskur ríkisborgari. Sagði hann að hún hefði ekki sannað að hún væri það og fengi ekki að kjósa. „Ég spurði hann hvað hann meinti,“ sagði Lada og hélt áfram. „Ég er með vegabréf og þó að það sé útrunnið, þýðir það ekki að ég hafi misst ríkisborgararétt minn. Þá sagði hann að þar sem innanlandsvegabréfið væri líka útrunnið mætti ég ekki kjósa. Ég sagði honum að það teljist ekki útrunnið fyrr en ég kem næst til Rússlands en þá hef ég 90 daga til að endurnýja það. Þetta væru lögin. Hann sagðist vera sama um lögin. Ég ákveð hlutina hér. Þú munt ekki kjósa. Ég er lögin hér.“

Lada segir að maðurinn hafi svo tekið vegabréfið og skrifað eitthvað niður upp úr því og svo skilað því. Grunar hún að maðurinn hafi notað nafn hennar svo til að kjósa Vladimir Putin. „Ég er alveg viss um að ef ég hefði komið að kjósa á einhverjum öðrum tíma, á öðrum degi, þá hefði ég fengið að kjósa,“ sagði Lada að lokum við Mannlíf og sagðist vita um eina aðra konu sem ekki fékk að kjósa, vegna útrunnins vegabréfs.

- Auglýsing -

Ekki náðist í ræðismann Rússlands við gerð fréttarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -