Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Meintur brotaþoli Daníels Arnar rýfur þögnina: „Ég fraus bara en gat ekki hætt að gráta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég fraus bara, en gat ekki hætt að gráta, ekki fyrir mitt litla líf. Ég var bara með ekka,“ segir kona sem var í ofbeldissambandi með varaborgarfulltrúa sem sagði sig nýverið frá störfum vegna ásakana.

 

Steig til hliðar af virðingu fyrir verkalýðs- og stjórnmálabaráttu

Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins og ritari stjórnar Eflingar, sagði sig frá stjórnmálaþátttöku og félagslegum störfum á laugardag vegna ásakana um kynferðisofbeldi. Hann var einnig í framboði til stjórnar stéttarfélags Eflingar fyrir hönd hins nýja Baráttulista, en dró sig sömuleiðis úr því.

Daníel Örn greindi sjálfur frá þessu á Facebook-síðu sinni á laugardag. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs höfðu ásakanirnar borist í hendur Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, sem ræddi málið síðan við Daníel Örn. Hann sagði sig strax frá störfum sínum í kjölfarið.

Í tilkynningu sinni talar Daníel um ásakanir en ræðir ekki sérstaklega hverjar þær eru eða hvort hann gangist við þeim. Þess í stað segist hann hafa ákveðið að stíga til hliðar af virðingu fyrir störfum Sósíalistaflokksins og fyrir baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum og aðstæðum.

Mannlíf hefur rætt við meintan brotaþola Daníels og hún samþykkt það að saga hennar sé birt. Hún kýs að koma fram undir nafnleynd eins og sakir standa.

- Auglýsing -

 

„Ég veit að hann veit“

Konan sem um ræðir segist í samtali við blaðamann lítið hafa sofið síðastliðna nótt.

„Ég er búin að vera í einhverju svona skrýtnu ástandi, þar sem mig langar ekki að opna neitt um þetta en á sama tíma er ég obsessive að tékka.“

- Auglýsing -

Henni þótti yfirlýsing Daníels taktlaus og hugnast ekki að sjónum sé alfarið beint að pólitískum störfum, án þess að axla ábyrgð eða eiga samtal um ásakanirnar.

Daníel Örn hefur nú falið eða eytt Facebook-síðu sinni. Stuttu áður birtist athugasemd undir færslunni hans sem sagði: „Virkilega ógeðfellt mál og mér finnst þú skauta verulega framhjá þeirri sem á inni afsökunarbeiðni. Efling og Sósíalistaflokkurinn eru ekki í sárum eftir þig“

„Það er enginn ómissandi,“ segir konan í samtali við blaðamann. „Verkalýðsbarátta og stjórnmálabarátta er ekki að fara að stranda út af einum manni.

Ég veit að það er kannski pínu barnsleg hugsun hjá mér en ég raunverulega bjóst við því að hann myndi taka ábyrgð. Af því að hann er, síðast þegar ég vissi, í 12 spora samtökunum.

Líka af því að hann veit. Ég veit að hann veit. Það fór ekkert á milli mála. Þetta var ekki á neinu gráu svæði, þetta var bara út fyrir allt.“

Fyrsta kynferðisbrotið í sumarbústað

Konan átti í ástarsambandi við Daníel Örn á árunum 2020 og 2021. Þau byrjuðu saman í upphafi ársins 2020 en hættu síðan saman í mars sama ár. „Sá partur af sambandinu var hér um bil eðlilegur,“ segir hún. Þau byrjuðu svo aftur saman í september árið 2020 og voru saman þar til í febrúar árið 2021. Hún segir að það hafi verið í október árið 2021 sem Daníel Örn hafi brotið á henni kynferðislega í fyrsta sinn.

Þau höfðu farið upp í sumarbústað sem Daníel Örn hafði aðgang að, verandi varaborgarfulltrúi í Reykjavík.

„Við fórum í heita pottinn og drukkum og spjölluðum. Ég var undir áhrifum áfengis, ég var orðin mjög ölvuð, og hann var pirraður. Það var eins og hann ætlaði sér að refsa mér fyrir það; að ég væri að vera pirrandi.“

Hún segir Daníel því næst hafa þröngvað sér á hana og nauðgað henni í endaþarm, á meðan hún hágrét og bað hann um að hætta.

„Hann lagði mig yfir endann á pottinum, þannig að kanturinn á pottinum var svona í bringuna á mér. Þetta var svo ógeðslega vont. Líka eftir smá tíma – mér var bara illt allsstaðar. Eftir smá stund var ég líka orðin svo hrædd um að ég myndi fara undir vatnið. Þannig að ég var bara að bíða eftir því að þetta væri búið. Þarna fraus ég eiginlega bara, þegar ég var búin að átta mig á því að ég gæti óvart, ef ég myndi bakka aðeins, farið undir vatnið. Þannig að ég fraus bara, en ég gat ekki hætt að gráta, ekki fyrir mitt litla líf. Ég var bara með ekka.“

Daginn eftir var henni illt; hún var aum og ringluð. Hún segir að Daníel Örn hafi sagst elska hana og að hann hafi talið henni trú um það að þetta hafi verið frábært.

„Honum fannst þetta bara geggjað. Honum fannst held ég eiginlega bara betra að ég hafi verið grátandi.“

 

Ekki á gráu svæði

„Við stunduðum alveg kynlíf sem var í BDSM-áttina. En það eru mjög skýr mörk sem liggja þar.“ Hún segist sjálf aldrei hafa upplifað óöryggi í slíku kynlífi. „Þarna var ég hinsvegar bara núll prósent örugg.“

„Mér finnst svo mikilvægt að það komi fram að þetta var ekki á neinu gráu svæði. Þetta var bara ótrúlega ofbeldisfull nauðgun. Það voru miklir eftirmálar, bæði líkamlega og andlega. Mig langar ekki að hann geri þetta aftur við einhverja aðra.“

 

„Málið yrði fellt“

Hún segir Daníel hafa brotið á sér oftar eftir þetta með sama hætti. „Nokkrum vikum seinna gerðist þetta aftur, nema heima hjá honum. Aftur grét ég, bað hann um að hætta og sagði honum að hann væri að meiða mig. Aftur skipti það engu máli. Ég sagði einu sinni við hann að hann yrði að hætta þessu; þetta væri ótrúlega fucked up og að ég gæti bókstaflega bara kært hann fyrir þetta. Hans viðbrögð voru samstundis að svara, blákalt:

„Ég myndi bara sýna dómaranum fetlife-ið þitt og málið yrði fellt.“

Fetlife er samskiptamiðill fyrir BDSM-hneigða, sem og fólk með áhuga á BDSM eða ákveðnum blætum. Í BDSM eru skýrar reglur um samþykki og virðingu lykilatriði.

„Hans viðbrögð voru strax þau að ég væri hvort eð er svo mikil drusla, vegna þess að ég fílaði BDSM, þannig að það skipti engu máli hvað ég segði. Ég mun aldrei gleyma þessu. Það var svo undarleg dýnamík í sambandinu okkar og ég var alltaf svo mikið að reyna að þóknast honum. Þannig að mér brá en tók þessu svo bara; eins og þetta væri bara góður punktur hjá honum.“

 

Andlegt ofbeldi ágerðist

Hún segir sambandið hafa orðið mjög óheilbrigt eftir því sem leið á. Hann hafi beitt hana andlegu ofbeldi og skilyrt hana þannig að hún var að eigin sögn orðin afar ringluð.

„Ég var bara undir hælnum á honum. Allt var eftir hans hentisemi. Einhvern tíma vorum við að horfa saman á mynd seint um kvöld og ég sofna yfir myndinni. Fyrir mig er það bara frekar eðlilegt. Þegar ég vakna er hann farinn og svarar mér ekki í marga klukkutíma og er síðan að refsa mér í nokkra daga fyrir þetta. Hann var bara brjálaður yfir því að ég skyldi sofna. Þetta hafði gerst nokkrum sinnum og hann varð alltaf reiðari og reiðari. Þá kom svona silent treatment. Ég var bara þreytt; ég er í fullri vinnu og í skóla.“

 

„Ég ætla aldrei aftur að vera með svona Stígamótabeyglu“

Hún segir Daníel Örn hafa farið mikinn í yfirlýsingum um ánægju sína með kynlíf þeirra.

„Hann var svo ánægður með þetta, því hann var giftur í tíu ár, áður en við byrjuðum saman. Og fyrrverandi konan hans er ráðgjafi hjá Stígamótum. Hann var alltaf að segja að hann ætlaði sko aldrei aftur að vera með svona fokking Stígamótabeyglu. Hann sagði þetta alltaf: „Ég ætla aldrei aftur að vera með svona Stígamótabeyglu. Ég trúi ekki að ég hafi lifað ömurlegu kynlífi í tíu ár.“ Hann var svo feginn að vera laus úr þeirri prísund sem það var að eiga konu sem setti mörk.“

Hún segist hafa verið svo hrædd um að enginn myndi trúa sér, einmitt vegna þess að hann hafi verið giftur konu í tíu ár sem starfaði hjá Stígamótum og var áberandi í slíkri umræðu. „Hann bakkaði hana upp opinberlega.“

 

Taldi að hún væri verðlaus

Konan sleit sambandinu við Daníel Örn í febrúar árið 2021. „Þá var hann nýbúinn að vera tekinn fyrir ölvunarakstur og ég sagði bara við hann að ég vildi ekki vera bendluð við svona. Þetta var bara komið út í rugl. Hann var oft að koma hérna heim til mín svo fullur að ég sagði bara að hann yrði að fara. Ég gat ekki hleypt honum inn því ég var bara hrædd við hann. Hann var svartur í augunum og ég var hrædd við hann.

Svo hættum við saman og erum ennþá í einhverjum samskiptum, aðeins. Það var bara búið að skilyrða mig þannig að ég taldi það að ég væri bara hundrað prósent verðlaus og ætti engan góðan skilið. Hann væri bara fullkominn fyrir mig; ég gæti bjargað honum. Eftir að samskiptum okkar lauk fór hann inn á Vog. Þá fékk ég, í fyrsta sinn eftir að við byrjuðum saman, svona pínulítið andrými. Ég fékk tækifæri til að skoða það sem hafði gengið á.“

 

„Gangi þér vel með lífið“

Í síðustu samskiptunum þeirra á milli svaraði konan skilaboðum frá Daníel Erni, þar sem hann spurði hana hvað væri að frétta. Í svari sínu reyndi hún að eigin sögn að setja fótinn niður. Þetta var um tveimur mánuðum eftir að hún sleit sambandinu, þann 28. apríl 2021. Í skilaboðunum, sem Mannlíf hefur undir höndum, lýsir hún því hvernig henni þyki síðustu 7 til 9 mánuðir lítið annað hafa gert en að brjóta sig niður. Hún hafi verið komin með brotna sjálfsmynd og fundist hún óelskuleg. „Ég tek sjálf ábyrgð á því hvernig mér hefur liðið en þú hefur óneitanlega spilað þátt þar í, þá sérstaklega ógeð og hatur á líkamanum mínum,“ segir hún í skilaboðunum. Hún segist í framhaldinu hafa ákveðið að taka skref afturábak til þess að hlúa að sjálfri sér. Hún endar skilaboðin á því að óska honum góðs gengis.

Svar Daníels var eftirfarandi:

„Takk fyrir að vera bara heiðarleg og upfront með þetta. Gangi þér vel með lífið“

 

Önnur kona með svipaða sögu af sama manni

Konan birti fyrstu frásögn sína nafnlaust í baráttuhópi á Facebook og í öðrum stuttu síðar. Í kjölfarið hefur hún komist í samband við aðra konu sem hefur svipaða sögu að segja af Daníel Erni og hefur gefið leyfi sitt fyrir því að það komi fram hér. Sú kona segist vera í sálfræðivinnu við að vinda ofan af ofbeldinu.

Í athugasemd undir færslu hennar í öðrum Facebook-hópnum skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrum formaður Eflingar og sú sem leiðir hinn nýja Baráttulista, sem Daníel Örn var í kjöri fyrir: „Ég trúi þér.“

 

Blaðamaður hafði samband við Daníel Örn til að gefa honum tækifæri til þess að tjá sig um ásakanirnar. „Já, nei takk,“ sagði Daníel Örn um leið og blaðamaður hafði kynnt sig, og skellti því næst á. Hann fékk sömuleiðis spurningar í skilaboðum, sem hann hefur ekki svarað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -