Salan í ÁTVR í páskavikunni, það er frá 6. apríl – 11. apríl, var 621.957 lítrar í ár. Til samanburðar var salan á sama tíma í fyrra 526.239 lítrar. Það er aukning um 18% á milli ára.
Viðskiptavinir ÁTVR voru 98.807 talsins í páskavikunni í ár, á sama tímabili í fyrra voru þeir 95.158 talsins. Þetta er aukning upp á 4%.
„Miðvikudagurinn fyrir páska er einn af söluhæstu dögum ársins, en í ár seldust um 236 þúsund lítrar, sem er svipað og sama dag í fyrra, en salan dreifðist mun jafnar niður á dagana í ár,“ segir á vef ÁTVR. Þar er viðskiptavinum þakkað fyrir þolinmæðina sem þeir sýndu þegar biðraðir mynduðust vegna fjalægðatakmarkana.
„Við þökkum viðskiptavinum fyrir tillitssemi og þolinmæði vegna fjarlægðatakmarkana og biðraða sem mynduðust á mestu háannatímum vegna takmarkana sökum samkomubanns.“