Samkvæmt kosningspám sem flokkarnir í Hafnarfirði hafa látið útbúa fyrir sig, en kosið verður á laugardag, verða miklar breytingar í Hafnarfirði þar sem Sjálfstæðismenn hafa farið með völdin síðan 2014.
Nýjustu spárnar eru mjög svipaðar, og ákveðið mynstur er að sjá; Sjálfstæðisflokkurinn hríðfellur í fylgi og fá samkvæmt þeim spám sem Mannlíf hefur undir höndum, þrjá kjörna bæjarfulltrúa og missa þar með tvo.
Framsóknarflokkurinn er með einn bæjarfulltrúa, og hefur flokkurinn undanfarið komið nokkuð vel út, og mældist nýverið með tvo menn inni. En nú er breyting á því, og nýjustu tölur segja Framsóknarflokkinn ná einum manni, en að ekki megi muna miklu að hann náist ekki inn. Talað er um að frammistaða og tvöfeldni Ágústar Bjarna Garðarssonar sé nú að koma í bakið á flokk hans: Ágúst Bjarni var mjög óvænt kjörinn á þing í haust og sagðist ekki ætla að sinna bæði þingmennsku og starfi bæjarfulltrúa og nefndarmanns; Ágúst Bjarni stóð ekki við sín orð – sagði ósatt – og kláraði kjörtímabilið í Hafnarfirði samhliða þingstörfum sínum og þáði greiðslur frá bæði ríki og sveit. Við þetta þarf oddviti flokksins í dag, Valdimar Víðisson, að glíma við á lokasprettinum, sem gæti orðið erfiður; jafnvel bara það að halda sínum manni inni í dag er ekki mjög líklegt.
Viðreisn hefur þótt standa sig vel á kjörtímabilinu þar sem Jón Ingi Hákonarson er oddviti; hann er ákveðinn og metnaðargjarn og svo gæti farið að Viðreisn næði inn öðrum manni, og væru þar með líklega í lykilstöðu í samningsumleitunum eftir kosningar. Í dag fengi Viðreisn tvo menn kjörna.
Líffræðingurinn Haraldur R Ingvason skipar efsta sætið á lista Pírata í Hafnarfirði, og hefur þótt standa sig vel; Píratar mælast samkvæmt þeim nýju könnunum sem Mannlíf hefur undir höndum með einn mann inni, líffræðinginn Harald.
Og þá að stóru tíðindunum, fyrir utan fylgishrun Sjálfstæðisflokksins, risasigur Samfylkingarinnar virðist blasa við. Eftir að Guðmundur Árni Stefánsson sneri heim og bar sigur úr býtum í prófkjöri Samfylkingarinnar í vetur, hefur fylgi flokksins í skoðanakönnunum aukist jafnt og þétt, og nú mælist Samfylkingin með fimm kjörna fulltrúa.