Melkorka Torfadóttir, fitnesstjarna og hárgreiðslukona, hefur fengið algjörlega nóg af óumbeðnum typpamyndasendingum, sem henni berast stundum daglega. Til að berjast gegn perrunum hefur hún ákveðið að afhjúpa þá á Instagram.
„Ég fékk slíkar myndir mjög oft, óeðlilega oft. Þetta var nánast upp á hvern dag þegar ég var ljóshærð,“ segir Melkorka í samtali við DV. Eftir að hún litaði hárið á sér dökkt dró hins vegar úr myndasendingunum. Engu að síður hefur Melkorka fengið nóg af hinum óumbeðnu typpamyndum.
„Líka ef ég fæ skilaboð frá karlmönnum sem eiga konur, þá set ég það líka í story. Eða mjög ógeðsleg skilaboð. Eftir að ég fór að deila skjáskotum af þessum skilaboðum á Instagram þá snarminnkaði þetta. Alveg rosalega mikið,“ segir Melkorka og heldur áfram:
„Það hefur verið hringt myndbandssímtal í mig þar sem strákur var að rúnka sér, á meðan ég var í vinnunni og ég óvart svaraði. Einhver sem ég þekki ekki neitt. Ég hef líka fengið kúnna til mín sem byrjaði að fitla við sig undir slánni. Ég rak hann bara út. Þannig það er alls konar áreiti sem ég hef lent í.“
Melkorka hefur núna snúið vörn í sókn og vill afhjúpa alla perrana. Hún segist einfaldlega ekki skilja hvað mönnunum gengur til og hvetur aðrar konur til að afhjúpa þá sem senda á þær óumbeðnar typpamyndir.
„Ég hvet allar stelpur til að deila nafni og öllu í Story. Um leið og ég afhjúpaði þann fyrsst þá hættu þeir að þora að senda á mig. Sá síðasti sagði ekkert, heldur blokkaði mig bara. Stelpum finnst þetta náttúrulega ógeðslegt og taka undir þetta, en það eru því miður margar stelpur sem fá svona myndir. Ég veit ekki hvaða viðbrögð þeir halda að þeir fái. En það hlýtur að vera einhvers konar spennufíkn, ég hef ekki hugmynd um hvað liggur að baki svona. Ég væri til að fá að hitta þá stelpu sem þetta hefur virkað á,“ segir Melkorka.