„Þarna missti ég minn albesta vin og gekk í gegnum hrikalegt áfall þegar hann dó. Þegar dauðinn kom og ástvinur fór stóð ég algjörlega tóm og varnarlaus eftir,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um sáran bróðurmissi þegar hún var á þrítugsaldri. Á barnsaldri missti hún sjón og upplifði erfitt einelti í æsku vegna fötlunar sinnar. Eftir að hafa sjálf alist upp við fátækt og erfiðleika er það einlægt markmið stjórnmálaforingjans að útrýma fátækt á Íslandi. Inga rifjar upp í viðtali við Mannlíf erfiðar minningar og nýrri sár sem til urðu á hinum fræga Klausturbar.
Inga segir Klaustursmálið fræga hafa kennt sér að ekki séu allir viðhlæjendur í pólitík vinir hennar. Hún er enn að jafna sig eftir áfallið sem hún varð fyrir.
„Mér þykir alltaf jafnóþægilegt að horfa á þetta fólk og þurfa að vinna í návígi við það. Það ýfir alltaf upp sárin og ég tel að þau óþægindi hverfi aldrei. Helst hefði ég viljað að ég þyrfti aldrei að sjá fólkið aftur því það er því miður þannig að ég kann ekki vel við það eftir þessa upplifun,“ segir Inga meðal annars í viðtali við Mannlíf.
„Því miður eru stjórnmálamenn gegnumheilt miklir lygarar og mér ofbýður oft slæm framkoman og rangindin.“
Lestu viðtalið við Ingu í helgarblaðinu Mannlíf.