Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Mest lesnu fréttir ársins – Endurkoma Gylfa, harmleikir og nýjar ástir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2023 var ár endurkomu, ofbeldis, harmleika og ástarinnar ef marka má lestrartölur Mannlífs. Í heildina voru fréttirnar lesnar yfir 18 milljón sinnum, sem þýðir að meðalflettingar á dag var um 50.000. Verður það að teljast nokkuð gott hjá litlum miðli sem þessum. Nokkar fréttir stóðu upp úr en um leið og við rifjum upp tíu mest lesnu fréttir ársins 2023, þakka ritstjórn Mannlífs fyrir stuðninginn á árinu og óskum þjóðinni gæfuríks komandi árs.

10. Gylfi Þór er kominn heim – „Þegar maður bjó á Íslandi gat maður ekki beðið eftir að flytja í burtu“ – 38.800 lesendur

Gylfi Þór Sigurðsson

Fyrrverandi óskabarn þjóðarinnar snéri heim á árinu eftir tveggja ára rannsókn bresku lögreglunnar á meintu kynferðisbroti Gylfa Þórs gegn ólögráða einstaklingi en hann sætti farbanni á meðan rannsóknin stóð yfir. Að lokum fór að málið var látið niður falla og hin fallna knattspyrnustjarna snéri aftur heim. Fréttin af heimkomu Gylfa er 10. mest lesna frétt Mannlífs á árinu.

9. Eiginmaður Svövu myrtur og hún segir lögreglu brjóta á sér:„Þeir komu inn með byssur og allt saman“ – 39.500 lesendur

Svava

Enginn skortur var á harmleikum á árinu, því miður en Mannlíf ræddi við Svövu Guðmundsdóttur sem missti eiginmann sinn í október í fyrra er hann var stunginn til bana. Svava þurfti að sitja í fangaklefa í fjóra daga og var eftir það færð í einangrun. Að lokum fór þó svo að henni var sleppt og hreinsuð af öllum grun um að hafa komið að morði eiginmanns síns. Þegar viðtalið var tekið við Svövu hafði lögreglan handtekið hana og kunningja hennar á hóteli fyrir norðan. Sagði hún lögregluna hafa brotið á sér og að hún væri öll lurkum lamin eftir handtökuna.

8. Gylfi Þór mættur – „Fyrsta daginn eftir síðasta leikinn þá flyt ég strax“ – 41.400 lesendur

- Auglýsing -
Gylfi Þór Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Lesendur Mannlífs höfðu greinilega mikinn áhuga á Gylfa Þór á árinu en önnur frétt um heimkomu kappans var lesin í drasl. En hún snérist um að hann hefði mætt á leik Tindastól og Vals er þau léku í úrslitum Íslandsmót karla í knattspyrnu. Var þetta í annað skiptið sem Gylfi sást opinberlega frá því að hann kom heim eftr tveggja ára farbann frá Bretlandi vegna rannsóknar á meintu kynferðisbroti hans gegn ólögráða einstaklingi. Málið var líkt og áður kemur fram, látið niður falla.

7. Gunna Dís kynnir nýju ástina í lífi sínu: „Ég er með hann á heilanum“ – 43.000 lesendur

Gunna Dís og KóKó

Tvennt er það sem gleður landann hvað mest en það er hin frábæra fjölmiðlakona Guðrún Dís Emilsdóttir og annars vegar krúttleg dýr. Ef þetta tvennt er sett saman gerist eitthvað töfrandi. Sjöunda mest lesna frétt Mannlífs á árinu fjallar um nýjasta meðlim fjölskyldu Guðrúnar Dísar og eiginmanns hennar, Kristjáns Þórs Magnússonar en það var hvolpurinn KóKó. Gunna Dís, eins og hún er ávalt kölluð, kolféll fyrir krúttinu og skyldi engan undra, hvutti er algjör krúttbomba!

- Auglýsing -

6. Sævar Daníel: „Ég skil eftir upptökur og fleira sem ég vona að kasti ljósi á hvernig ég var myrtur“ – 43.800 

Sævar
Mynd – YouTube-skjáskotSjötta mest lesna frétt ársins er um sorgarsögu Sævars Daníels Kolandavelu, sem einnig gengur undir listamannsnafninu Poetrix. Hafði hann skrifað átakanlega færslu á Facebook þar sem hann lýsir því hvernig heilbrigðiskerfið á Íslandi brást honum í hans miklu veikindum. Sagði hann frá því hversu ósjálfbjarga hann væri orðinn vegna afar sjaldgæfs ástands líkamans. Lýsti hann því á þennan hátt:

„Þetta er tilkomið vegna þess að hryggurinn á mér er svo illa slitin að hann togast of langt í sundur, og ég þarf manually að halda honum í stað, ekki ósvipað ef og tjald myndi missa eina festinguna við jörðina, og byrja fjúka til himins. Ég þarf bókstaflega að liggja og halda mér föstum í ákveðnum stellingum svo hryggurinn á mér liggi ekki undir frekari skemmdum, en honum hefur hrakað gífurlega og eru nú mestmegnis liðbanda í hálsi og baki að slitna vegna ofhreyfingarinnar og ég er bersýnilega afmyndaður.“

5. Harkaleg handtaka í Ármúla – Óður ökumaður réðst að lögreglunni MYNDBAND – 45.800 lesendur

Mynd / aðsend

Sú frétt sem var sú fimmta mest lesna fjallaði um harkalega handtöku í Ármúlanum, sem náðist á myndband sem minnti helst á atriði í kvikmynd. Þar sást dökkleit Honda nauðhemla eftir að lögreglan hafði veitt bifreiðinni eftirför. Ökumaðurinn steig svo út og æddi í átt að lögreglumönnunum. Greip þá annar lögreglumaðurinn piparúða og beindi að manninum óða. Stuttu síðar var hann yfirbuðaður og skellt í götuna. Bárust öskrin frá ökumanninum um allan Ármúlann eða því sem næst. Reyndist maðurinn vera síbrotamaður eða svokallaður góðkunningi lögreglunnar. Sannkallað bíó.

4. Sonur Guðbjargar rekinn – 46.600 lesendur

|
Guðbjörg Matthíasdóttir

Fjórða mest lesna frétt ársins er ekki eiginleg frétt, heldur það sem Mannlíf kallar orðróm. Þar er sagt frá fjölskylduóeiningu meðal einnar auðugustu fjölskyldu landsins. Í orðróminum er sagt frá því að sonur einnar ríkustu konu Íslands, Guðbjargar Matthíasdóttur, hann Sigurður Sigurðsson hafi verið rekinn sem skipstjóri og stýrimaður af einu uppsjávarskipa Ísfélagsins sem er í meirihlutaeign sona Guðbjargar. Í kjölfarið mætti Sigurður ekki í Kauphöllina þegar móðir hans fékk þann heiður að hringja félagið inn í Kauphöllina. Sannkallaður fjölskylduharmleikur.

3. Nafn konunnar sem lést í bílslysinu á Vesturlandsvegi – 49.600 lesendur

Þriðja mest lesna fréttin kom ekki af neinu góðu enda allta harmleikur þegar fólk deyr í bílslysum. Fréttin er í raun tilkynning um andlát Jóninnu Huldar Haraldsdóttir, sem lést í bílslysi á Vesturlandsvegi í desember, er bifreið hennar lenti á bifreið ungs pars sem mætti henni. Parið lifði af en framundan er erfið endurhæfing.

2. Alexandra eiginkona Gylfa mætt aftur – „Það hefur verið draumur hjá okkur“ – 53.600 lesendur

Það var ekki bara endurkoma Gylfa Þórs sem vakti athygli lesenda Mannlífs heldur einnig endurkoma eiginkonu hans, Alexöndru. Hún hafði hætt á Instagram þegar eiginmaðurinn var rannsakaður vegna meints kynferðisbrots á ólögráða einstaklingi árið 2021. En þegar fréttin, sem lesin var 53.600 sinnum, var skrifuð var Gylfi kominn heim eftir að rannsókn málsins var hætt. Og þá notaði Alexandra tækifærið og byrjaði aftur á Instagram en hún rekur barnavöryverslunina Móa&Mía ásamt Móeiði Lárusdóttur.

1. Guðbjörg Svava er látin – Faðir hennar missti eiginkonu og dóttur sama daginn 56.200 lesendur

Blessuð sé minning Guðbjargar Svövu Guðmundsdóttur 

Mest lesna frétt ársins er um mikinn harmleik en Guðmundur Sigurður Guðmundsson missti bæði eiginkonu sína, Anniku Hillbracken og dóttur, Guðbjörgu Svövu Guðmundsdóttur, sama daginn. Guðbjörg Svava hafði árið 2021 misst eiginmann sinn er hann var stunginn til bana á Ólafsfirði en hún sat inni um stund, grunuð um að tengjast málinu en var svo sleppt er sannað þótti að hún væri alsaklaus. Anikka lést í örmum eiginmanns síns og sama dag lést Guðbjörg Svava en hún var þá nýorðin 37 ára. Lét hún eftir sig tvo syni, annar þeirra aðeins þriggja ára gamalt. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -