Loro nokkur, íbúi í miðborginni, segir farir sínar ekki sléttar vegna viðskipta við Bónus í miðbænum. Ítrekað hefur hún lent í því að vera ofrukkuð „um heilan helling“ á afgreiðslukassa
Loro segir frá reynslu sinni í hópi miðborgarelítunnar á Facebook, Íbúar í miðborg. Við skulum gefa henni orðið:
„Bónus á Laugavegi.. smá forvitni, hafa þeir sem fara á kassann (ekki sjálfsafgreiðslu) lent í því að vera ofrukkuð um alveg helling, þar sem í stað einnar sultu voru rukkaðar 20 sultukrukkur? Ég fer ekki oft þangað en var rukkuð um 18 dósir þar sem ég keypti bara eina,“ segir Loro og bætir við:
„Þá mundi ég að ég lenti í þessu fyrir nokkrum mánuðum með hindber. Ég tók strax eftir þessu með hindberin en mér brá þegar ég skoðaði kassakvittunina áðan þar sem 398 kr voru rúmar 7000. Hvernig gat það gerst tvisvar ..á sama kassa, með sömu afgreiðsludömu. Annað hvort er ég svaka óheppin eða kannski er þetta að gerast óeðlilega oft þarna??“
Sigrún er ein þeirra sem blandar sér í umræðuna og hún virðist hafa sloppið. „Fer oft þangað, aldrei lent i þessum,“ segir Sigrún.
Steinunn virðist hins vegar kannast við vandamálið. „Mjög algengt hjá nýjum starfsmönnum eða þegar það er mikið að gera og maður orðinn soðinn í hausnum eftir daginn sem afgreiðslumanneskja. Myndi bara fara með kvittunina og fá þetta leiðrétt, það er almennt ekkert mál en því fyrr því betra,“ segir Steinunn.
Daði athugar alltaf hvort svindlað hafi verið á sér. „Besta sparnaðarráð sem til er er að skoða alltaf kassakvittunina eftir greiðslu og bera saman við vörurnar í pokunum. Held að langflestir lenda í ofrukkun í einhverjum mæli yfir árið (lang oftast vegna mistaka),“ segir Daði.