Það er mikið að gera á Landspítalanum að sögn framkvæmdastjóra lyflækninga- og bráðaþjónustu spítalans.
Miklar annir hafa verið undanfarna daga á Landspítalanum. Meiri aðkoma fólks og fleiri innleggjandi einstaklingar. Hefur það birst með þeim hætti að lengri bið sé á bráðamóttökunni í Fossvogi.
„Þetta er auðvitað óheppilegt fyrir sjúklingana sem þurfa að bíða lengur eftir þjónustu. Þetta er óþægilegt og það er bið,“ sagði Már Kristjánsson, framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðaþjónustu á Landspítalanum um málið samtali við mbl.is.
„Þegar starfsfólk kemur úr sumarleyfum þá opnast upp fleiri rúm en starfsemin sem hefur þurft að bíða yfir sumarið eykst um leið. Nú er þetta þannig að það er meira um að vera og birtingarmyndin er á bráðamóttökunni sem hefur áhrif á sjúkraflutningana og bið eftir sjúkrabíl.“
Þá þurfi fólk að gera sér grein fyrir að bráðatilvik séu misalvarleg og eru þau flokkuð í fimm mismunandi flokka.
„Ef það er mjög mikið að gera í forgangsflokki 1 og 2 þá bíða hinir. Það hefur verið talsvert um að vera á bráðamóttökunni og það táknar að biðtíminn er lengri.“