Talsverður erill var í miðbæ Reykjavíkur í nótt samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Upp úr miðnætti var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Eftir sýnatöku var honum sleppt.
Um klukkan hálf tvö í nótt voru höfð afskipti af einstaklingi sem bakkað hafði bifreið sinni á aðra bifreið. Kom í ljós að hann var undir áhrifum fíkniefna og án gildra ökuréttinda í þokkabót. Eftir hefbundið ferli var hann laus.
Kortér í þrjú í nótt óskuðu dyraverðir á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur eftir aðstoð en þeir héldu þar aðila sem hafði verið til vandræða. Lögreglan tók við málinu á vettvangi.
Ökumaður var stöðvaður í miðborginni klukkan 03:40, grunaður um ölvunarakstur. Eftir sýnatöku var honum sleppt.
Á sama tíma barst lögreglu tilkynning um slagsmál í miðborginni en slagsmálin voru búin þegar lögreglu bar að garði. Meintur gerandi var handtekinn stuttu síðar nærri vettvangi.
Fimm mínútum síðar hafði einstaklingur samband við lögregluna og sagðist hafa verið beittur piparúða. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.
Þá kemur fram í dagbókinni að ýmis minniháttar mál hafi komið upp vegna ölvunar og slagsmála.