„Því miður þá rímar það ekki nógu vel. Vissulega þá eru dæmi um það erlendis að orkumál, umhverfismál og loftslagsmál séu felld undir eitt ráðuneyti, en á Íslandi hafa helstu átök í sambandi við náttúruvernd verið í tengslum við orkuvinnslu. Þess vegna hefur það verið mikilvægt fyrir okkur sem erum sérstaklega að hugsa um náttúruverndina að það væri alltaf rödd innan ríkisstjórnarinnar sem hefði þetta sem megin hlutverk, nú erum við komin með ráðherra sem fer inn í ríkisstjórnina með tvo hatta, einn fyrir orkunýtinguna og einn fyrir náttúruvernd,“ segir Tryggvi Felixson formaður Landverndar.
Þá gagnrýnir Tryggvi að skipulagsmál séu færð frá umhverfisráðuneytinu til innviðaráðuneytisins og þar með séu Skipulagsstofnun og Vegagerðin komin undir sama ráðherra. Skipulagsmál séu hluti af náttúruvernd.
„Okkur finnst þetta mikil afturför fyrir stöðu umhverfis- og náttúruverndar á Íslandi, það sem verið er að gera í þessum sáttmála. Við vonum að það komi fljótt í ljós að þetta sé alls ekki góð leið, þannig að ríkisstjórnin sjái að sér.“
Heimild: RÚV.