Sex aðilar gista í fangaklefa á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Frá klukkan 17:00 til 05:00 voru alls 74 mál bókuð í kerfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru nokkur dæmi um verkefni lögreglunnar á tímabilinu.
Aðila var vísað af slysadeild en hann var til vandræða og hafði í hótunum við starfsfólk slysadeildarinnar.
Í hverfi 104 var aðili handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar og hótana.
Í miðbæ Reykjavíkur var maður handtekinn og vistaður í fangaklefa eftir að hann hafði í hótunum við annan aðila.
Þá var aðili handtekinn vegna óláta og slagsmála í miðborg Reykjavíkur. Var hann fluttur á lögreglustöð þar sem tekin var skýrsla af honum og honum síðan sleppt.
Samkvæmt dagbók lögreglunnar var talsverður hiti í fólki í miðbænum, þrátt fyrir frostið og urðu talsverðir pústrar á milli manna. Fjórir aðilar voru handteknir og fluttir á lögreglustöð þar sem skýrslur voru teknar af þeim. Eftir skýrslatöku héldu mennirnr hver í sína átt.
Í Hafnarfirði varð umferðaróhapp en ökumaðurinn reyndist undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda. Þá var aðili handtekinn í Hafnarfirði fyrir líkamsárás. Var hann vistaður í fangaklefa en árásarþoli var fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabíl.
Í Breiðholtinu var aðili handtekinn vegna líkamsárásar og skellt í steininn.
Umferðaróhapp varð í Grafarholtinu en ökumaðurinn reyndist vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna en hann vistaður í fangaklefa.
Að lokum segir frá bílveltu í dagbók lögrelgu sem átti sér stað í hverfi 110 en ökumaðurinn var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.