Áhyggjufullir vegfarendur höfðu samband við Mannlíf vegna fjölda viðbragðsaðila við bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Tveir slökkviliðsbílar voru þar mættir ásamt tveimur sjúkrabílum.
Mannlíf kíkti á bandaríska sendiráðið á Engjateig í Reykjavík, eftir að ábendingar bárust frá vegfarendum sem höfðu áhyggjur vegna sjúka- og slökkviliðsbíla við sendiráðið. Við fyrstu sýn var vel hægt að ímynda sér að eitthvað grafalvarlegt hafði gerst, tveir vígalegir slökkviliðsbílar voru nærri inngangshliði sendiráðsins, jafn margir sjúkrabílar voru þar nálægt sem og sjúkrabörur á hjólum. Þá voru þó nokkrir slökkviliðsmenn á lóð sendiráðsins. En sem betur fer var ekki um neitt alvarlegt að ræða, nema síður sé.
„Þetta er bara æfing,“ sagði sallarólegur slökkviliðsmaður sem stóð við innganghliðið, aðspurður um hvað væri í eiginlega í gangi. Þegar hann var spurður um það hvað væri verið að æfa svaraði hann: „Bara viðbrögð við eld og þess háttar“. Bætti hann við að slíkar æfingar væru nokkuð reglulegar.
Þá vitum við það, ekkert að óttast.