Þriðjudagur 28. janúar, 2025
-1.2 C
Reykjavik

Mín fyrsta Costco ferð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir fimm árum síðan gerðist nokkuð sem fáir ef einhverjir höfðu þorað að vona hér á landi. Stórverslunin Cosco opnaði á Íslandi. Ég man nú ekki daginn sem það gerðist en ég er nokkuð viss um að himnarnir hafi opnast og englar sungið í kór, slík var dýrðin sennilega.

Stofnaðar voru um fimm Costco-grúppur á Facebook en sú vinsælasta, Costco gleði hefur um 55 þúsund fylgjendur. Ég endurtek, 55 þúsund fylgjendur. Einhver sniðugur stofnaði grúppuna Costco ógleði en þar eru ekki nema 28 hræður. Gleðin vegna þessarar verslunar tröllreið Íslandi fyrstu árin og þótti sumum um of á tímabili. Ekki hefur gleðin minnkað neitt sérstaklega en hún er kannski tamdari ef svo má að orði komast.

En nú, fimm árum síðar er ég loksins búinn að fara í Costco! Ég hef verið á leiðinni alltof lengi en einhvernveginn ekki þorað því, fyrr en ég náði loksins að berja í mig kjark. Af hverju þorði ég ekki fyrr? Ég veit það ekki almennilega, risastór flæmi finnst mér svolítið yfirþyrmandi og svo hef ég heyrt að fólk eigi auðvelt með að eyða miklu meiri pening en það ætlaði sér og hann hefur oft verið af skornum skammti hjá mér, peningurinn.

Það fyrsta sem ég tók eftir var að það var brjálað að gera. Ég átti í erfiðleikum með að finna bílastæði en náði loksins að leggja litla bílnum mínum fyrir framan tvo glæsilega Kia-bíla. Það minnti mig á besta bíl sem ég hef átt, Kia Magentis sem ég klessti fyrir nokkrum árum. Þannig að ég kom inn nokkur dapur í bragði. Fyllti út eitthvað eyðublað og fékk svo kort afhent með ljósmynd af mér sem var aldrei þessu vant, bara nokkuð vel heppnuð.

Við inngöngu í verslunina tók á móti mér kortalögregla sem skannaði nýja kortið mitt því ekki viljum við Costco-klúbbmeðlimir að óalandi og skítugur almúginn fái að versla þarna, nei, sorry, þetta er bara fyrir meðlimi með kort. Svo blasti herlegheitin við. Hvílíkt flæmi, hvílíkt endalaust flæmi! Mér leið svolítið eins og þegar ég álpaðist alveg óvart inn á Paloma og horfði yfir dansgólfið, ég var staddur í öðrum heimi, öðrum veruleika.

Ég hafði vit á því að taka ekki risavaxna innkaupakörfu með mér inn í búðina, eins og aumingja litli gamli karlinn sem ég sá við innganginn. Maðurinn hefði léttilega getað komist fyrir í körfunni. Ég hló með sjálfum mér við þá tilhugsun og hélt áfram för minni. Athyglisbresturinn sem ég er greindur með fór gjörsamlega á yfirsnúning þarna inni því allsstaðar sem ég leit, var eitthvað að sjá sem ég hafði aldrei séð áður eða eittvað sem ég hafði séð áður en ekki svona mikið af. Ringlaður gekk ég framhjá allskyns raftækjum og staldraði við fallega rafmagnsrakvél og var virkilega farinn að spá í að splæsa í eina en mundi þá að ég er alskeggjaður. Næst kom ég að fatafjöllunum en sá nokkurn veginn ekkert sem vakti áhuga minn þó að veðurprófaðar úlpurnar hljómuðu ágætlega, ekki myndi ég vilja kaupa úlpur sem ekki væru veðurprófaðar.

- Auglýsing -

Allt í einu sá ég hóp björgunarsveitamanna með tilheyrandi leitarbúnaði og spurði nærstaddan starfsmann hvað væri í gangi. Það hafði eldri karlmaður týnst í versluninni efir að hann varð viðskila við eiginkonu sína daginn áður. Ég held að hann hafi fundist grafinn undir grábláum gallabuxum, skelkaður en heill á húfi.

Hægt er að sjá pistilinn um Costco-ferðina í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs sem hægt er að lesa hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -