Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Minning: Jóhannes Björn Lúðvíksson 1949-2022

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jóhannes Björn Lúðvíksson rithöfundur og skákmeistari lést á heimili sínu í New York í apríl s.l. á sjötugastaogþriðja aldursári.  Eftirlifandi eiginkona er Beth Rose bókaútgefandi en sonur hans og Þóru Ásbjörnsdóttur er Robert kerfisfræðingur.

Gunnar Finnsson skákkennari, æskuvinur Jóhannesar rifjar upp tæplega sjötíu ára kynni þeirra:

Jóhannes Björn byrjaði snemma á samsæris-kenningum sínum í portinu á Laugavegi 19.  Þar messaði hann yfir okkur strákunum, Óla Sig, Sverri Agnars, Sverri Guðjóns og mér og lagði út frá fjármálaspillingu heimsins eins og hann átti eftir að gera margoft síðar á lífsleiðinni með góðum árangri í ræðu og riti.

Í bakgarði bernskunnar voru leikir frá morgni til kvölds enda ekki annað að hafa.  Þá var bara ein útvarpsstöð, ekkert sjónvarp, engar tölvur, engir gemsar og ekkert kynslóðabil.  Stöku sinnum var friðurinn rofinn af raddsterkum mæðrum sem tilkynntu matmáls – og kaffitíma

Vaðneshringurinn afmarkaðist af Laugavegi, Smiðjustíg, Hverfisgötu og Klapparstíg. Við strákarnir hlupum gjarnan hringinn og tókum tímann. Jóhannes var snemma léttur á sér og frár á fæti.  Hann setti met sem stendur enn þó illar tungur segi að hann hafi stytt sér leið í gegnum portið á 19 en það er önnur saga!
Hverfisgata 32 var æskuheimili Jóhannesar. Þar ólst hann upp ásamt fimm systkinum, börnum Jónínu Jóhannesdóttur húsmóður og Lúðvíks Eggertssonar fasteignasala. Þuríður, fyrrum eigandi hússins, systir séra Árna Þórarinssonar, sigldi með syni sína Eggert og Þórarinn til tónlistarnáms í Köben snemma á fyrsta áratug síðustu aldar.  Þeir voru sennilega fyrstu Íslendingar sem fóru utan til að læra músik.

Í húsinu voru margar vistarverur og uppi í risi leigði Jónína, móðir Jóhannesar nokkrum einstaklingum herbergi.  Meðal minnisstæðra leigjenda var Eggert Gilfer skákmeistari og píanóleikari, sonur Þuríðar.  Í bakhúsinu voru svo Jakob, jafnan kallaður Kobbi kleina og Lína spákona.  Kobbi var bróðir Gilfers og Þórarins fiðluleikara.  Hann lék þann ljóta grikk að krækja stafnum í grandalaus ungmenni og draga þau til sín.  Því má nærri geta að börnin forðuðust að mæta þessum manni sem var sannkallaður krakkaskelfir í hverfinu. Gilfer, eða Gilli, eins og við krakkarnir kölluðum hann, var hins vegar algjört ljúfmenni.  Hann var sífellt að segja gamansögur sem börnin botnuðu ekkert í en hló sjálfur dillandi hlátri.

1963 stofnuðum við JBL Smámeistara-klúbbinn ásamt Jóni Guðmari og Gunnar Birgis.  Seinna bættust fleiri í hópinn s.s. Sigtryggur glímukappi, Snorri Þorvalds, Gaui Magg, Harvey Georgs, Helgi Hauks og Bragi Halldórs, hraðskákmeistari Norðurlanda, svo nokkrir séu nefndir. Við tefldum grimmt í fyrstu og fögnuðum fertugs – og fimmtugsafmælum með veglegum skákmótum.  Á næsta ári verður vafalaust haldið upp á sextugs-afmælið í minningu fallinna félaga. Jóhannes Björn var einn efnilegast skákmaður sinnar kynslóðar og tefldi á Evrópumóti unglinga 1969 í Amsterdam (og eftir það kallaður Hollandsfarinn meðal smámeistara).  Nokkrar skákir hans birtust í þýska tímaritinu Schach-Echo.

Eftir að Jóhannes byrjaði að tefla fyrir alvöru og Gilfer fallinn frá sögðu gárungar í Taflfélaginu að Gilfer tefldi í gegnum Jóhannes! Einu sinni var Jóhannes að tefla á alþjóðlegu skákmóti í New York og mætti í fyrstu umferð stórmeistaranum Formanek frá Ungverjalandi.

Flestir töldu að óþekktur skákmaður frá Íslandi yrði auðveld bráð fyrir stór-meistarann.  Það fór þó á annan veg því Jóhannes rúllaði meistaranum upp í 12 leikjum á gambít í franskri vörn! Þegar einvígi Fischers og Spasskís 1972 var að ljúka heimsóttum við JBL Hollendinginn dr. Max Euwe forseta FIDE og heimsmeistara 1935 á Hótel Esju. Þessi víðfrægi maður var einstakt ljúfmenni og höfðingi heim að sækja.  Hann bauð okkur upp á þjóðardrykkinn sjenever úr leirbrúsa og yfirdómari einvígisins Lothar Schmid slóst í hópinn. Þetta var ógleymanleg stund með minnisstæðum manni.  Í kveðjuskyni áritaði Euwe nokkrar frumsamdar skákbækur sem JBL hafði meðferðis.

Jóhannesi Birni var margt til lista lagt.  Hann var m.a. dansstjóri í forföllum í Alþýðuhúskjallaranum við lítinn fögnuð söngvarans því þegar Jóhannes tilkynnti að næst yrði dansaður svellandi polki var hljómsveitin að spila hægan vals!
Jóhannes var snjall penni og skrifaði léttan og lipran stíl eins og bækur hans “Falið vald” og fleiri bera með sér.  Eldskírnina fékk hann þó á Mánudagsblaðinu hjá Agnari Bogasyni.  Þar var hann lausapenni um skeið eftir að búið var að reka mig af blaðinu!  Jóhannes reit margar eftirminnilegar greinar í blaðið og tamdi sér hvassan stíl Agnars sem skrifaði gjarnan þegar hrikti rækilega í þjóðfélaginu; “fólk er orðið langþreytt á ástandinu!”

1974 stofnuðum við Jóhannes vikublaðið Hraðtíðindi, HT sem við héldum að mundi valda straumhvörfum í íslenskri blaðamennsku.  Svo varð þó ekki þrátt fyrir að ýmislegt væri þar bitastætt.  Meðal annars bráðskemmtileg grein JBL þar sem hann færir sterk rök fyrir því að nýr Gamli sáttmáli milli Íslands og Noregs væri í burðarliðnum!  Þetta var því miður eina tölublað HT og kannski var það nóg – nýjabrumið var horfið.

Jóhannes var afar frjór í hugsun og hugmyndaríkur.  Hann átti ýmis nýyrði eins og þegar hann kallaði prestastéttina atvinnugóðmenni og lögguna embættið. “Við þessir miklu menn” voru ávarpsorð okkar félaganna, sögð af meðfæddu lítillæti, kannski til að hefja sig hátt yfir pöpulinn “hinn hráa massa” að okkur fannst.

Hermann flöskusali var áberandi persóna í miðbænum á sinni tíð.  Hann var ráðdeildarsamur í meira lagi … og lifði spart.  Einu  sinni lögðum við Jóhannes gildru fyrir hann. Við sáum hann koma vestur Hverfisgötu og Jóhannes ákvað í sama mund og karlinn fór framhjá 32 að láta 50 króna járnhlunk detta við fætur sér.  Það skipti engum togum að Hemmi beygir sig niður eftir spesíunni en Jóhannes verður fyrri til og nær henni. Þeir fara að deila og á því andartaki kem ég aðvífandi og blanda mér í málið.  Hemmi segist hafa slætt niður peningi sem Jóhannes þykist eiga.  Jóhannes fullyrðir að hann eigi peninginn sem hann hafi misst á gangstéttina.  Þeir karpa um þetta dágóða stund en að lokum segir karlinn: “En ég heyrði hann klyngja!” Síðan bætti hann við og beindi máli sínu til mín og benti á Jóhannes með þykkju:  “Þetta er svo mikill nýjari!”

Við brölluðum margt í gegnum tíðina; tefldum, ortum og skáluðum. Við sömdum gamanþætti og lékum inn á segulband og leyfðum gestum og gangandi að hlýða á. Kiljan, Þórbergur, Tómas, Davíð og Steinn voru okkar menn í skáldskapnum. 
Jóhannes Björn var mikill fagurkeri og kunni vel að meta lífsins lystisemdir í mat og drykk.  Hann rak áróður fyrir heilbrigðum lífsstíl þegar kom að mataræði en stóðst sjaldan óhollustu á borð við sætindi af ýmsu tagi!  JBL kunni að lifa lífinu minnugur orða Lúthers: “Sá óð ei elskar, vín né víf / hann verður glópur allt sitt líf.” (þýð. séra Guðm. Sveinsson). Það er svo sannarlega sjónarsviptir af vini mínum Jóhannesi Birni.  Hann var einstakur.

Gunnar Finnsson

Minningargrein þessi birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs sem nálgast má í Bónus og Hagkaup fríkeypis. Þá má einnig lesa blaðið í rafrænni útgáfu hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -