Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Minning: Jóhannes Björn Lúðvíksson 1949-2022

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við vorum átta ára gamlir þegar fundum okkar bar saman í fyrsta sinn. Ég var nýfluttur inn í Vaðneshringinn sem var umvafinn af Laugavegi, Klapparstíg, Hverfisgötu og Smiðjustíg, en hlaut síðar nafngiftina Sirkusreiturinn og nefnist í dag, Hjartatorg. Jóhannes Björn var að sýsla hjá dúfnakofa sem eldri bróðir hans hafði reist í bakgarðinum. Ég staldraði við þegar hann leit upp með glettnissvip og spurði: “Hvað heitir mamma þín”? Vinskapur okkar átti eftir að þroskast og þróast og var afar náinn alla tíð. Þarna myndaðist sterkur vinahópur með auðugt ímyndunarafl, sem hélt uppi öflugu félagsstarfi. Við bárum einnig út dagblöð og seldum “Íslenska fyndni”. Jónína, móðir Jóhannesar Bjarnar sá það fljótt í hendi sér að best væri að opna húsið við Hverfisgötuna, sem varð okkar miðstöð næstu árin. Stofnað var knattspyrnufélagið “Samherjar” sem atti kapp við önnur hverfisfélög, borðtennisklúbbur, “bridge” klúbbur, taflklúbbur “smámeistara” og endalausir götuleikir, þar sem hápunkturinn var að hlaupa Vaðneshringinn undir einni mínútu. Næsti nágranni okkar var “Billiardstofan” við Klapparstíg sem var bönnuð innan sextán ára. Okkur langaði að prófa snókerinn og svindluðum okkur inn bakdyramegin, á neðri hæð. Eigendurnir gripu okkur yfirleitt, en sáu fram á að þarna færu framtíðarspilarar.

Jóhannes Björn var góðum gáfum gæddur, óvenju hugmyndaríkur, og hafði sterkar skoðanir á flestum hlutum. Í stað þess að ganga menntaskólaveginn lagðist hann í bóklestur, einkum skáldsagna og ljóða, og naut þess að leiða mig inn í þá veröld með sinni einstöku frásagnargáfu. Það tók oft á tíðum óratíma fyrir mig að komast heim eftir ferðalag frá eldhúsi, inn í stofu, fram á gang og út á götu. Endaspretturinn niður tröppurnar tók yfirleitt lengstan tíma. Húsið hafði margar vistarverur og ýmislegt átti sér stað sem ekki var einfalt að útskýra. Jónína, sá fleira en flestir og las stundum framtíð fólks í gegnum kaffibolla. Gunnar, “Skáldið”, félagi okkar tjáði mér nýlega að konan sem var á kreiki væri fyrrverandi eigandi hússins, sem minnti mig á söguna um það, þegar tvíburarnir, eldri systur Jóhannesar Bjarnar voru litlar, sáu þær konuna og upplýstu að hún væri að fela sig á bak við píanóið, sem stóð fast upp við vegg. Ég fór aldrei upp í ris.

Síðar, þegar við stunduðum nám saman á Suður-Englandi, fengum við mikinn áhuga á indverskri matargerð og leituðum uppi slíka matsölustaði. Við ákváðum að þroska og þróa okkar bragðlauka til þess að ráða við aukinn styrkleika. Við pöntuðum sterkasta réttinn sem þurfti sólarhrings fyrirvara, en auðvitað tók nokkra daga að fá eðlilegt bragðskyn til baka. Á tímabili stóð ég í þeirri meiningu að ég hefði fengið gat á magann. Okkar vinskapur varð til þess að ég gat leitað til Jóhannesar Bjarnar þegar mig vantaði ljóð við lög sem ég var að semja eða vinna með. Einnig er minnistætt framhaldsleikritið, “Innrásin frá Markab”, sem hann samdi fyrir þætti sem ég vann fyrir Ríkisútvarpið á sínum tíma. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Róberti, syni Jóhannesar Bjarnar og Þóru Ásbjörnsdóttur, þegar ég kenndi honum í Fossvogsskóla, og hef fylgst vel með honum í gegnum árin. Ekkjunni, Beth Sue Rose, kynntist ég síðar þegar ég dvaldi hjá þeim hjónum í nokkra daga, á heimili þeirra í New York, á leið minni til Kaliforniu og Japan.

Jóhannes Björn hafði mikinn áhuga á manntafli og var afar öflugur skákmaður. Hann varð unglingameistari Reykjavíkur í skák 16 ára að aldri og tók þátt í alþjóðlegu skákmóti í Hollandi, fyrir Íslands hönd. Það hlaut að koma að því að hann gæfi út bók, og ungur að árum gaf hann út ljóðabókina “Blástjörnur”. Síðar ritaði Jóhannes Björn þá merkilegu bók “Falið vald”, sem má segja að hafi sett ‘hrunið 2008’ í hnotskurn löngu áður en það átti sér stað. Það kom því ekki á óvart að hann yrði kallaður heim frá New York sem samfélagsrýnir hjá sjónvarpi og fjölmiðlum, til þess að kafa ofan í kjölinn og taka ríkan þátt í þeirri umræðu og uppbyggingu, sem átti sér stað í kjölfar hrunsins. Blessuð sé minning Jóhannesar Bjarnar.

Sverrir Guðjónsson

HORFNIR DRAUMAR (höf: Sverrir Guðjónsson)

haustið fellur að
brátt flæðir veturinn yfir
blóðrauðir runnar
á snævi þakktri jörð

ég opna hellinn til hálfs
horfi til hafs
gegnum hvít ríslandi lauf
sem hvísla í golunni

- Auglýsing -

kertið hefur brunnið ofan í kviku
síðasta andvarp logans
fyllir vitin höfgum ilmi
löngu horfinna drauma

Minningargrein þessi birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs sem nálgast má í Bónus og Hagkaup fríkeypis. Þá má einnig lesa blaðið í rafrænni útgáfu hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -