Snyrtifræðimeistarinn Erna Gísladóttir hefur ákveðið að halda áfram með Snyrtistofu Garðatorgs en í síðustu viku kom upp bruni á stofunni á Garðatorgi og óhætt er að segja að hann hafi haft gífurlega mikil áhrif á starfsemina.
„Nei, það tókst því miður ekki að bjarga neinu, við áttum því ekkert á fimmtudaginn til að hefja aftur reksturinn,“ sagði Erna Gísladóttir um málið við mbl.is en nýja staðsetning stofunnar er Hlíðarsmári 6 í Kópavogi en er sú staðsetning að svo stöddu tímabundin. Erna segir að hún hafi fengið ótrúlega mikla hjálp við að koma upp starfseminni aftur.
„Það eru jafnvel konur í faginu sem ég þekki ekki sem lána mér stóla og græjur, þannig þetta er búið að vera ótrúlegt ferli, einnig hafa heildsölur og birgjar hjálpað til við að koma okkur aftur í gang,“ en ellefu manns vinna hjá fyrirtækinu.
„Með velvilja, frábæru starfsfólki og hóp af góðu fólki sem samanstendur af fjölskyldu og vinum tókst okkur að opna aftur á miðvikudaginn,“ sagði Erna og að hún bíði spennt eftir að geta þjónustað alla þá viðskiptavini sem hafa verið hjá henni undanfarin 20 ár.