Nóttin hefur verið frekar róleg á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt dagbók lögreglu en sex eru í fangaklefa eftir nóttina.
Í miðbæ Reykjavíkur var aðili handtekinn grunaður um líkamsárás og vistaður í fangaklefa. Ökumaður var stöðvaður í sama hverfi en hann reyndist ekki aðeins undir áhrifum áfengis og fíkniefna, heldur reyndist hann einnig sviptur ökuréttindum.
Í hverfi 108 var aðili stöðvaður en hann reyndist undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá hafði hann aukreitis á sér fíkniefni.
Í Hafnarfirði varð umferðaróhapp þar sem ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók á vegg. Engin slys urðu á fólki en ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. Tveir einstaklingar voru handteknir í sama hverfi, vegna líkamsárásar og bæði vistuð í fangaklefa.
Í Kópavogi var ölvaður ökumaður stoppaður en þegar á honum var leitað kom í ljós að hann hafði einnig fíkniefni í fórum sér. Þá var ökumaður stöðvaður í Kópavogi en kom á daginn að hann var undir áhrifum fíkniefna.