Nýjasti gestur Sjóarans er Albert Haraldsson, fyrrum skipstjóri.
Hann hóf feril sinn á Íslandi en hélt svo utan til Chile þar sem hann gerðist fiskiskipstjóri og hélt úti lítilli smábátaútgerð. Albert komst nokkrum sinnum í hann krappan og missti meðal annars undan sér skip þegar hann var við veiðar sem fyrsti stýrimaður við strendur Chile.
Hér grípum við inn í miðri sögu af því:
„Þar var svona lok, því við hentum voða mikið af fiski á þeim tíma, það er ein af ástæðunum fyrir því að ég hætti hjá fyrirtækinu, þetta var alveg skeflilegt. En það var ekki einstefnulok á því og sjórinn byrjaði bara að flæða inn á millidekkið. Og ég gerði bara eins og þegar maður tekur stór höl, þá setur maður á góða ferð til þess að lyfta pokanum upp á yfirborðið og svo inn með hann. Þannig að ég gaf bara meira í þegar hann fer að halla og beygi í sama borði, bara út af miðflóttaaflinu. Og ég hleyp svo niður á dekk og fer að skoða þetta eitthvað og við förum að hífa hann eitthvað til náttúlega en það slitnaði bara. Svo hringir vélstjórinn upp í brú til mín og segir að það sé að koma sjór niður í vélarrúm. Þá segir ég við hann „láttu mig vita þegar sjór er að koma upp ásrafalinn“, því ef við myndum missa rafmagnið af skipinu gat ég ekki stoppað það. Þá hefði ég bara verið á 8 til 10 mílum að sigla í hring eftir hring. Og þá hefðum við aldrei komist í bátana. Þannig að hann hringir upp og segir að það sé kominn sjór upp undir rafalinn og þá sagði ég bara við hann að fara í klefann og ná í björgunarbeltið, þetta er bara búið. Set bara á fulla ferð aftur á bak og stoppa og bátarnir í sjóinn. Við byrjuðum á að slaka niður siglingaskipstjóranum, hann var svona 150 sinnum 150. Við slökuðum honum niður í spotta karlinum. Svo þegar allir voru farnir þá hljóp ég niður gangana og öskraði. Hljóp svo upp og tók dagbókina og opnaði hurðina og sagði „Hér kveð ég góðan vin“ og labbaði út á síðuna og á slingubrettið og stökk út í með dagbókina undir hendina.“
Reynir spurði Albert hvort þetta hafi ekki verið svakaleg upplifun. Ekki vildi Albert beint meina það. „Ja, já og þó. Þegar allir voru komnir í bátana, það er það sem skiptir máli. Stálið getur maður skipt út og lagað en mannslífin ekki.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér á efnisveitu Mannlífs.